Halastjarnan ISON

  • Halastjarnan ISON þann 15. nóvember 2013. Mynd: Damian Peach
    Halastjarnan ISON þann 15. nóvember 2013. Mynd: Damian Peach
Helstu upplýsingar
Uppgötvuð af:
Vitali Nevsi
Artyom Novichonok
Uppgötvuð:
21. september 2012
Fjarlægð við sólnánd:
0,0124 SE
1,2 milljón km
Í sólnánd:
28. nóvember 2013
Umferðartími:
-

1. Almennt um ISON

Þegar halastjarnan ISON fannst var hún rúmlega sex sinnum lengra frá sólinni en jörðin (næstum einn milljarð km frá sólinni) og á leið inn í sólkerfið.

Strax í kjölfar uppgötvunarinnar fannst halastjarnan á myndum sem teknar voru á Lemmon-fjalli 28. desember 2011 og 28. janúar 2012 með PanStarrs sjónaukanum á Hawaii.

Útreikningar sem þá voru gerðir á braut halastjörnunnar sýndu að hún yrði næst sólinni þann 28. nóvember 2013, um klukkan 19:00 að íslenskum tíma, þá í aðeins 1,2 milljón km hæð yfir yfirborði sólar. Hitastigið á yfirborði ISON á því augnabliki var um 2.700°C, svo ís gufaði hratt upp af henni.

Þegar halastjörnur komast svona nálægt sólu geta þær þess vegna orðið mjög bjartar. Birta ISON jókst smám saman þegar nær dró sólnánd en dofnaði sama stuttu áður en hún komst næst sólu og fuðraði upp.

Þegar ISON var næst sólu ferðaðist hún með um 360 km hraða á sekúndu – meira en þúsund sinnum hraðar en farþegaþota. Á þessum hraða færi hún þvert yfir Ísland á rúmlega sekúndu og til Kaupmannahafnar á sjö sekúndum. Til samanburðar ferðast Voyager 1, hraðfleygasti manngerði hluturinn, með 17 km hraða á sekúndu.

Mælingar bentu til að kjarni ISON hafi verið í kringum 2 til 3 km á breidd. Smæðin þýddi að ISON átti hugsanlega betri möguleika á að haldast heil eftir ferðalagið framhjá sólinni, en svo fór þó ekki. Rannsóknir hafa sýnt að nýjar og ferskar halastjörnur, sem aldrei hafa komið inn í innra sólkerfið áður, verða oft ekki jafn bjartar og eldri halastjörnur sem hafa oft ferðast framhjá sólinni. ISON var að ferðast í fyrsta sinn úr Oortsskýinu og jók ekki birtu sína eins mikið og vonir stóðu til.

Þann 26. desember hefði halastjarnan átt að komast næst jörðinni, þá í 63 milljón km fjarlægð frá okkur.

Milli 14. og 15. janúar fer jörðin hugsanlega í gegnum slóð halastjörnunnar og gæti þá orðið loftsteinadrífa.

2. Á himninum

halastjarna, ISON
Halastjarnan ISON á mynd Hubble geimsjónauka NASA og ESA. Búið er að skerpa myndina sérstaklega til að sýna smáatriði í innri hluta hjúpsins. Sjá má áberandi strók skaga út úr halastjörnunni.

Fljótlega eftir að ISON fannst voru miklar væntingar bundnar við hana, en hvort hún stendur undir þeim er háð mikilli óvissu: Vonir stóðu til um að hún yrði áberandi og fögur á himninum en það rættist ekki.

ISON var á mjög ílangri braut sem benti til þess að hún hafi átt rætur að rekja til Oortsskýsin, þar sem hún dvaldi í meira en fjóra milljarða ára sem gaddfreðinn ísköggull. Kjarninn var sennilega mjög rykugur og brothættur og stóðst á endanum ekki af sér ferðina framhjá sólinni. Vel þekkt er að halastjörnur sem lofa góðu, sundrist áður en eitthvað verður úr þeim.

Hefði ISON komist ósködduð í gegnum ferðalagið framhjá sólu, hefðu jarðarbúar átt von á fallegu sjónarspili á himni. Spár bentu til að hún hefði getað orðið með fegurstu halastjörnum sem prýtt hafa himininn um árabil, svipuð Ikeya-Seki árið 1965, McNaught í janúar 2007 og Lovejoy í desember 2011. Hugsanlegt var að ISON sæist í dagsbirtu þegar best léti.

Í ágúst 2013 var ISON um 2,5 sinnum lengra frá sólinni en jörðin. Í um það bil þeirri fjarlægð „kviknar á“ halastjörnum vegna hitans frá sólinni. Þennan mánuð var ISON þó heldur daufari en spár gerðu ráð fyrir.

Þann 1. október 2013 fór ISON framhjá Mars í tæplega 11 milljón km fjarlægð. Gervitungl á brat um Mars reyndu að taka myndir af halastjörnunni þá en harla fátt sást á þeim.

Þegar líður á nóvember dýfir ISON sér neðar á morgunhiminninn í átt að sólinni. Upp úr miðjum nóvember varð ISON nógu björt til að sjást með berum augum, naumlega þó, skammt frá stjörnunni Spíku í Meyjunni. Undir lok nóvember ætti birtan að aukast til muna — rétt um það leiti sem hún týnist í birtunni frá sólinni.

2.1 28. og 29. nóvember 2013

Spár benda nú til að ISON gæti sést í dagsbirtu 28.-29. nóvember. Hafa ber í huga að þá er halastjarnan næst sólinni, svo til að sjá hana þarf að gera sérstakar ráðstafanir og alls ekki nota sjóntæki. Gott er að stilla sér þannig upp að bygging eða ljósastaur skyggi á sólina og reyna síðan að skima eftir halastjörnunni með berum augum.

Á þessum tíma verkar mikill hiti og öflugir flóðkraftar á halasjtörnuna sem gætu sundrað henni. Tveimur dögum síðar eða svo ætti að vera auðveldara að sjá ISON, ef eitthvað verður eftir af henni.

2.2 Desember 2013

Desembermorgnar eru besti tíminn til að sjá halastjörnuna. Á morgnana verður hún lágt á lofti í aust-suðaustri við sólarupprás en um það bil í vest-norðvestri við sólsetur í stjörnumerkinu Naðurvalda.

Hún hækkar á himni með hverjum deginum sem líður þegar hún fjarlægist sólina. Því ætti að vera auðveldar að sjá hana þegar líður á mánuðinn, en að sama skapi dofnar hún hratt.

Um miðjan desember færist ISON norður í stjörnumerkið Herkúles. Þann 15. desember gæti birta frá minnkandi tungli truflað. Um jólin verður hún væntanlega orðin það dauf að nota þarf bæði stjörnukort og handsjónauka til að finna hana.

Hér er tafla sem Þorsteinn Sæmundsson hefur reiknað út hæð ISON á himninum yfir Reykjavík.

3. Myndasafn

halastjarna, ISON

Halastjarnan ISON 30. apríl 2013

Halastjarnan ISON á mynd Hubble geimsjónaukans sem tekin var 30. apríl 2013.

Mynd: NASA, ESA og Hubble Heritage Team (STScI/AURA)

Halastjarnan ISON á mynd Hubble geimsjónaukans

Halastjarnan ISON 9. október 2013

Hér sést halastjarnan C/2012 S1, betur þekkt sem ISON, á mynd sem Hubble geimsjónauki NASA og ESA tók þann 9. október 2013. Halastjarnan var þá í rúmlega 280 milljón km fjarlægð frá Jörðinni.

Mynd: NASA, ESA og Hubble Heritage Team (STScI/AURA)

Halastjarnan ISON 2. nóvember 2013  

Halastjarnan ISON 2. nóvember 2013

Hubble geimsjónauki NASA og ESA tók þess mynd af halastjörnunni ISON 2. nóvember 2013, en þetta er seinasta myndin sem sjónaukinn tók af halastjörnunni fyrir sólnánd. Myndin er sett saman úr ljósmyndum sem teknar voru í gegnum bláa og rauða síu. Ís og gas í hjúpnum utan um kjarna halastjörnunnar endurvarpa betur bláu ljósi og því sýnist kjarninn grænbláleitur. Ryk í halanum endurvarpa rauðu ljósi betur og sýnist því rauðleitur.

Mynd: NASA, ESA og Hubble Heritage Team (STScI/AURA)

Halastjarnan ISON á mynd TRAPPIST sjónaukans  

Halastjarnan ISON 15. nóvember 2013

Þessi mynd af halastjörnunni C/2012 S1 (ISON) var tekin með TRAPPIST sjónaukanum í La Silla stjörnustöð ESO, föstudagsmorguninn 15. nóvember 2013. Myndin er sett saman úr fjórum 30 sekúndna myndum sem teknar voru í gegnum bláar, grænar, rauðar og og nær-innrauðar síur. Halastjarnan færðist miðað við stjörnurnar í bakgrunni þegar myndirnar voru teknar, svo stjörnurnar birtast okkur sem marglita punktar. Sjá nánar hér.

Mynd: TRAPPIST/E. Jehin/ESO

4. Fréttir af halastjörnunni ISON á Stjörnufræðivefnum

Tenglar

Heimildir

  1. Verður björt halastjarna á himni í lok næsta árs? Stjörnufræðivefurinn bloggar.

  2. John E. Bortle. The Comet ISON Story. Sky & Telescope, desemberhefti 2013, bls. 26-29.

  3. Alan MacRobert. Dazzle or dud? When, where, and how to watch whatever Comet ISON becomes. Sky & Telescope, desemberhefti 2013, bls. 30-33. 

Höfundur: Sævar Helgi Bragason