Kanópus

Bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Kilinum

  • stjörnukort, stjörnumerki, Kjölurinn
    Kort af stjörnumerkinu Kilinum
Helstu upplýsingar
Stjörnumerki:
Kjölurinn
Fjarlægð:
310 ljósár
Sýndarbirtustig: –0,72
Reyndarbirtustig:
–5,53
Litrófsgerð:
F0 Ib
U–B litvísir:
B-V litvísir:
0,04
0,15
Massi:
9-10 M
Radíus:
65 R
Ljósafl:
15.100 L
Yfirborðshitastig:
7.350 K

Nafngift

Nafnið Kanópus kemur fyrst fram Almagest, riti Kládíusar Ptólmæosar frá 2. öld e.Kr. Samkvæmt grískum sagnariturum var stjarnan nefnd eftir ræðara gríska konungsins Menelásar. Þegar Menelás sneri frá Tróju með Helenu fögru, rak flota hans af leið vegna storms og kom að landi í Egyptalandi. Þar beit snákur Kanópus svo hann dó en Helena drap svo snákinn. Menelás og Helena jörðuðu Kanópus og á þeim stað reis borgin Kanópus sem í dag heitir Abu Qir við ármynni Nílar.

Í Kína til forna var Kanópus þekkt sem Laroen eða „gamli maðurinn“ og stundum Nanji Laoren eða „gamli maður suðurpólsins“. Hann jafngilti Shouxing, guð langlífi.

Í Japan er Kanópus þekkt sem Mera-boshi og Roujin-sei eða „Stjarna gamla mannsins“.

Kanópus er ein þeirra stjarna sem prýða Brasilíska fánann. Þar táknar stjarnan Goiás, eitt af ríkjum eða fylkjum Brasilíu.

Eiginleikar

Kanópus er reginrisi í litrófsflokki F0 Ib. Yfirborðshitastig hennar er rúmar 7.000°C en stjarnan er um 15.000 sinnum skærari en sólin okkar. Hún er um 10 sinnum massameiri en sólin.

Kanópus er um 65 sinnum breiðari en sólin svo ef hún væri í miðju okkar sólkerfis, næði hún næstum út að braut Merkúríusar. Frá jörðu séð væri sýndarbirtustig hennar –38 en til samanburðar er birtustig sólar –27.

Hliðrunarmælingar evrópska gervitunglsins Hipparkosar leiddu í ljós að Kanópus er í um 310 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

Stjörnukort

Stjörnukort í prentvænni útgáfu sem sýnir staðsetningu Kanópusar á himninum er að finna hér.

Heimildir

  1. http://stars.astro.illinois.edu/sow/canopus.html

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Canopus

  3. SIMBAD Astronomical Database - Canopus