Dagbók stjörnufræðikennara – Kennsluvika 12 – vor 2014

Um dagbókina

Hér er sagt frá einni kennsluviku í stjörnufræði við Menntaskólann í Reykjavík veturinn 2013-2014.


Fjarlægðarstiginn

Ég reyndi að útskýra fyrir nemendum hvernig við mælum eða metum fjarlægðir í alheiminum. Við getum mælt fjarlægðir á beinan hátt til fyrirbæra í sólkerfinu (t.d. sent ratsjárbylgjur til Venusar og mælt tímann sem það tekur þær að fara þangað og koma aftur til jarðar) eða til nálægra stjarna í Vetrarbrautinni (með svonefndum hliðrunarmælingum).

Fyrir fyrirbæri sem eru lengra í burtu þurfum við að nota aðrar aðferðir sem byggja upphaflega á hliðrunarmælingum en eru heimfærðar upp á fyrirbæri sem eru lengra í burtu. Þetta kerfi fjarlægðarmælinga gengur yfirleitt undir heitinu „Fjarlægðarstiginn“ (e. Cosmic distance ladder).