Sólkerfisrölt 7. bekkjar

Sólkerfisrölt 7. bekkjar

Þann 4. apríl 2009 setti 7. bekkur B í Melaskóla upp líkan af sólkerfinu okkar í miðbæ Reykjavíkur. Verkefnið var hluti af 100 stjörnufræðistundum sem var einn af meginviðburðum árs stjörnufræðinnar 2009. Á fjórða tug þátttakenda rölti frá sólinni á Ingólfstorgi og upp á Hlemm þar sem áttunda reikistjarnan, Neptúnus, var staðsett í 1,5 km fjarlægð.

Myndirnar tók Óskar Torfi Viggósson.

Allir klárir í slaginn fyrir sólkerfisröltið

Hér eru allir klárir í slaginn. Bekknum var skipt upp í hópa og átti hver hópur að finna til upplýsingar um sína reikistjörnu. Upplýsingarnar voru svo settar upp á blað og límdar á skilti. Auk þess átti hver hópur að finna hlut sem passaði við stærð reikistjörnunnar (saltkorn, títíprjónshaus, glerkúlu o.s.frv.).

Gulklæddi skoppuboltinn sem sést hægra megin á myndinni er líkan af sólinni en samkvæmt útreikningum bekkjarins ætti hún að vera tæplega hálfur metri á breidd miðað við að Neptúnus sé í 1,5 km fjarlægð. Tveir mælingameistarar sáu um að mæla vegalengdirnar á milli reikistjarnanna og notuðu m.a. snærið á myndinni sem skipt var niður í tuttugu eins metra löng bil.

Venus lenti fyrir framan Subway í Austurstræti

Hópurinn stoppaði við hverja reikistjörnu og Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélagsins, hélt örstuttan fyrirlestur. Hér erum við stödd hjá reikistjörnunni Venusi í 36 metra fjarlægð frá sólinni.

Venusarhópurinn hélt uppi merki reikistjörnurnnar

Venusarhópurinn hélt uppi merki reikistjörnunnar og var með líkan af henni sem hægt var að nota til samanburðar við sólina og hinar reikistjörnunar.

Hópurinn hjá jörðinni fyrir framan Arion banka

Þessi mynd er tekin frá sólinni á Ingólfstorgi út Austurstræti í áttina að Lækjartorgi. Hópurinn er hjá jörðinni sem er á stærð við litla kúlu (0,4 cm) í 50 metra fjarlægð frá sólinni. Vegalengdin frá sólu til jarðar er skilgreind sem 1 stjarnfræðieining sem jafngildir 50 metrum í líkaninu okkar. Enn er löng ganga framundan upp á Hlemm þar sem Neptúnus lendir í 30 stjarnfræðieininga fjarlægð frá sólinni (1.500 m).

Sævar heldur á Mars sem var á stærð við piparkorn

Hér heldur Sævar á líkani af rauðu reikistjörnunni Mars sem er á stærð við salt- eða piparkorn.

Júpíter lenti neðst í Bankastræti

Stærsta reikistjarna sólkerfisins, Júpíter, lenti neðst í Bankastrætinu í um 250 metra fjarlægð frá sólinni.

Úranus fyrir framan Kjörgarð á Laugaveginum

Sjöunda reikistjarnan, Úranus, var við Kjörgarð á Laugavegi í tæplega eins kílómetra fjarlægð frá sólinni.

Kúlan í rauða boxinu táknar Úranus

Kúlan í rauða boxinu táknar Úranus sem er um fjórum sinnum breiðari en jörðin.

Áttunda reikistjarnan, Neptúnus, lenti við Hlemm

Áttunda reikistjarnan, Neptúnus, lenti við Hlemm í 1,5 km fjarlægð frá sólinni. Ljósið er um 4 klukkustundir á leiðinni frá sólinni að Neptúnusi en það tók okkur ekki nema eina og hálfa klukkustund að ganga alla þessa leið með tilheyrandi stoppum!

Í þessu líkani myndi dvergreikistjarnan Plútó lenda við Þjóðskjalasafnið á Laugaveginum í 2 km fjarlægð frá sólinni. Næsta sólkerfi, Alfa Kentár, sem er þrístirni væri aftur á tveir skoppuboltar og einn körfubolti í hafinu norður af Ástralíu í 13 þúsund kílómetra fjarlægð! Það segir sína sögu um hve smáar sólstjörnurnar eru í himingeiminum og hve litlar líkur eru á því að sólin lendi í árekstri við aðrar stjörnur í Vetrarbrautinni.