Krakkafréttir

Alheimur með myrka fortíð

  • eso1138a

Hefur þú einhvern tímann vaknað einn morguninn, litið út um gluggann og séð niðdimma þoku sem síðan leysist upp þegar sólin rís? Nokkurn veginn það sama gerðist þegar alheimurinn var barnungur.

Þegar fyrstu stjörnurnar og vetrarbrautirnar urðu til var alheimurinn uppfullur af niðdimmri þoku úr vetnisgasi. Þokan kom í veg fyrir að ljós frá stjörnum gæti ferðast milli staða í geimnum. Á myndinni sem fylgir hér að ofan sést hvernig listamaður hefur ímyndað sér hvernig þessar vetrarbrautir litu út.

Fyrstu stjörnur alheimsins voru risavaxnar, um það bil 100 sinnum þyngri en sólin okkar. Frá þessum þungavigtarstjörnum barst mjög sterk útfjólublá geislun sem leysti upp þokuna og gerði ljósi frá stjörnum kleift að ferðast óhindrað um geiminn. Skyndilega létti til. Ef þú hefur einhvern tímann sólbrunnið þekkir þú vel hversu orkuríkir útfjólubláir geislar geta verið.

Nýlega notuðu stjörnufræðingar risasjónauka í Chile í Suður Ameríku sem kallast Very Large Telescope (eða VLT til styttingar), til þess að horfa aftur í fortíðina á vetrarbrautir frá þeim tíma þegar þokan byrjaði að leysast upp.

Stjörnufræðingarnir tóku eftir nokkru óvæntu: Á þeim stutta tíma sem leið milli þess að elstu og yngstu vetrarbrautirnar sem þeir skoðuðu urðu til, hafði alheimurinn breyst úr því að vera mjög þokukenndur í að vera næstum tær. Þokan í alheiminum leystist upp miklu hraðar en stjörnufræðingar höfðu eitt sinn haldið.

Skemmtileg staðreynd: Vetrarbrautirnar sem stjörnufræðingarnir rannsökuðu eru meðal þeirra fyrstu sem urðu til í alheiminum. Þá var alheimurinn milli 780 og 980 milljón ára gamall! En þar sem alheimurinn er 13,7 milljarða ára telst hann enn ungabarn fyrstu 1000 milljón árin!