Krakkafréttir

Þegar Plútó var ekki lengur reikistjarna

  • eso1142a
    Sýn listamanns á Eris, dvergreikistjörnuna fjarlægu. Nýjar mælingar sýna að Eris er smærri en áður var talið og næstum jafnstór Plútó. Yfirborð Erisar hefur mjög hátt endurvarp og er líklega þakið hrími sem myndast þegar lofthjúpurinn frýs og fellur á yfirborð. Mynd: ESO/L. Calçada

Hvað er reikistjarna? Við fyrstu sýn ætti að vera til einfalt svar við svo einfaldri spurningu en svo er reyndar ekki. Fyrir örfáúm árum síðan olli hún stjörnufræðingum miklum heilabrotum. Þegar svarið var loks fundið hafði það afdrifaríkar afleiðingar: Ein reikistjarnan var ekki lengur reikistjarna.

Reikistjarnan sem felld var af stalli er Plútó. Hún var fjarlægasta reikistjarnan frá sólinni og einnig sú minnsta í sólkerfinu, minni en tunglið okkar meira að segja. Þess vegna vildu margir stjörnufræðingar meina að Plútó ætti ekki heima í hópi reikistjarna heldur væri hann hluti af hópi lítill hnatta utarlega í sólkerfinu sem kalla ætti annað.

Árið 2005 dró til tíðinda. Þá fundu stjörnufræðingar dularfullt fyrirbæri óralangt frá sólinni sem hlaut nafnið Eris. Eris var í fyrstu talin mun stærri en Plútó og eftir það lágu örlög hans ljós fyrir: Plútó var ekki lengur reikistjarna. Í staðinn bjuggu stjörnufræðingar til nýjan hóp dvergreikistjarna og var greyið Plútó settur í þann hóp ásamt Erisi.

Nýlega tókst stjörnufræðingum að mæla stærð Erisar miklu betur en áður og komust þá að því að hún er reyndar ekki stærri en Plútó eftir allt saman. Plútó og Eris eru næstum jafn stórir hnettir. Þau Plútó og Eris eru eiginlega tvíburar! Hver veit, kannski hefði Plútó átt betri möguleika á að vera enn reikistjarna ef stjörnufræðingar hefðu getað mælt stærð Erisar nákvæmar í upphafi. Greyið Plútó!

Skemmtileg staðreynd: Plútó hefur fjögur tungl en Eris eitt. Ef hnettir í sólkerfinu okkar hafa tungl getum við reiknað út hversu þungir þeir eru með hjálp stærðfræðinnar og eðlisfræðinnar. Og ef við vitum stærðina og þyngdina, þá getum við líka fundið út það sem kallast eðlismassi. Eðlismassinn gefur svo góðar vísbendingar um úr hverju hnötturinn er. Þannig höfum við komust að því að bæði Plútó og Eris eru úr blöndu íss og bergs.

  • Hér getur þú séð myndir af Plútó. Árið 2015 heimsækir geimfar Plútó og þá fáum við miklu betri myndir! Getur þú ímyndað þér hvernig Plútó lítur út?