Krakkafréttir

Varahlutir bergreikistjarnanna

  • Lútesía, smástirni
    Hér sést smástirnið Lútesía á mynd sem Rósetta geimfar ESA tók af því í júlí 2010. Lútesía er 100 km í þvermál og virðist vera leif af sama efni og myndaði jörðina, Venus og Merkúríus í upphafi. Lútesía er nú í smástirnabeltinu milli Mars og Júpíters en efnasamsetningin bendir til þess að hún hafi myndast mun nær sólinni. Mynd: ESA 2010 MPS fyrir OSIRIS hópinn MPD/UDP/LAM/IAA/RSSD/INTA/UPM/DASP/IDA

Það er okkur enn hulin ráðgáta hvers vegna innstu reikistjörnurnar — Merkúríus, Venus og jörðin — eru svona ólíkar, þótt þær hafi allar orðið til úr svipuðum efnum. Stjörnufræðingar geta lært meira um uppruna þeirra með því að rannsaka smærri berghnetti sem kallast smástirni og eru leifarnar frá myndun reikistjarnanna.

Árið 2010 fengu stjörnufræðingar gullið tækifæri til að rannsaka smástirni sem heitir Lútesía þegar evrópska gervitunglið Rósetta flaug framhjá því. Lútesía er 100 km að stærð, svo stórt að það næði frá Reykjavík til Hvolsvallar eða frá Akureyri til Mývatns ef við kæmum því fyrir á þessum stöðum. Þetta smástirni er að finna í smástirnabeltinu milli Mars og Júpíters,

Eftir heimsókn Rósettu og nánari rannsóknir með sjónaukum á jörðinni og í geimnum komust stjörnufræðingar að því að Lútesía hefur alveg örugglega ekki orðið til þar sem hún er nú. Lútesía er nefnilega úr sama efni og finnst í sjaldgæfri tegund loftsteina sem fallið hafa til jarðar. (Loftsteinar eru á stærð við venjulega steina og því miklu smærri en smástirni.)

Það sem er áhugavert við þessa sjaldgæfu loftsteina er að þeir urðu til nálægt sólinni, á svipuðum stað og innstu reikistjörnurnar þrjár. Fyrst Lútesía er úr sama efni og þessir loftsteinar, þá hlýtur hún að hafa orðið til líka á þessu sama svæði í sólkerfinu þar sem Merkúríus, Venus og jörðin mynduðust. Lútesía er sem sagt stór leif af efninu sem myndaði jörðina upprunalega!

Nú dreymir stjörnufræðinga um að senda geimfar til Lútesíu, sækja sýni af yfirborðinu og rannsaka það nánar í rannsóknarstofu. Þannig gætum við leyst ýmsa leyndardóma um uppruna bergreikistjarnanna og fundið svör við spurningum um uppruna okkar eigin jarðar.

Áhugaverð staðreynd: Fyrr í þessari viku (8. nóvember 2011) sveif annað og gerólíkt smástirni framhjá jörðinni. Smástirnið heitir 2005 YU55 og er 400 metrar að stærð. Það þaut framhjá okkur í minni fjarlægð en tunglið er frá jörðinni — hársbreidd framhjá á stjarnfræðilegan mælikvarða en samt í öruggri fjarlægð. Smástirni sem komast svona nálægt jörðinni eru kölluð jarðnándarsmástirni.