Krakkafréttir

Vinaleg vampírustjarna

  • tvístirni, SS Leporis
    Þessar hnífskörpu myndir af tvístirninu SS Leporis var búin til úr mælingum sem gerðar voru með VLT víxlmælinum í Paranal stjörnustöð ESO með PIONIER mælitækinu. Kerfið samanstendur af rauðri risastjörnu á braut um heitari fylgistjörnu. Myndirnar eru 50 sinnum skarpari en ljósmyndir Hubblessjónauka NASA og ESA og gerir mönnum ekki aðeins kleift að skilja sundur stjörnurnar og fylgjast með þeim hringsóla hvor um aðra, heldur líka mæla stærð rauða risans nákvæmar en nokkru sinni fyrr. Hafa ber í huga að stjörnurnar hafa verið litaðar í samræmi við hitastig þeirra. Mynd: ESO/PIONIER/IPAG

Stjörnufræðingar hafa náð bestu mynd sem tekin hefur verið af stjörnu sem hefur misst stóran hluta af efni sínu til „vampírustjörnu“!

Á myndinni hér til hliðar sést hvernig staðsetningar stórrar stjörnu (rauð) og „vampírustjörnunnar“ (blá) breytist á um einum og hálfum mánuði þegar þær hringsóla hvor um aðra.

Fjarlægðin milli stjarnanna er örlítið meiri en fjarlægðin milli jarðar og sólar. (Til samanburðar er bilið milli sólar og nálægustu stjörnu við hana um 870.000 sinnum meira en milli jarðar og sólar!). Stjörnurnar tvær eru svo nálægt hvor annarri að vampírustjarnan hefur sogið til sín um það helminginn af massa stærri stjörnunnar.

„Við vissum að þetta var óvenjulegt tvístirni og að efni streymdi frá annarri stjörnunni yfir til hinnar“ segir stjörnufræðingurinn Henri Boffin. En það sem kom stjörnufræðingunum á óvart var hvernig vampíran sýgur til sín efni.

Myndirnar sýna að stærri stjarnan er örlítið minni en stjörnufræðingarnir höfðu áður talið. Hún er sem sagt ekki nógu stór til að fylla upp í bilið milli stjarnanna tveggja og reyndar aðeins nógu breið til að fylla upp í fjórðung af bilinu. Þess vegna er miklu erfiðara að útskýra hvernig stjarnan glataði efninu sínu yfir til smærri stjörnunnar — vampíran nær ekki að bíta fórnarlamb sitt!

Stjörnufræðingarnir telja nú að í stað þess að vampíran bíti kasti stóra stjarnan sjálf efni frá sér. Smærri stjarnan gleypir þá aðeins það efni sem berst til hennar — eins og vinaleg vampíra!

Skemmtileg staðreynd: Flestar stjörnurnar sem þú sérð með berum augum á næturhimninum eru tvístirni eða jafnvel fjölstirni.

Þessi frétt er unnin í góðu samstarfi við UNAWE og Space Scoop

UNAWE, Universe Awareness for Young Children Space Scoop