Krakkafréttir

Svartholið í miðju Vetrarbrautarinnar fær sér að borða

  • risasvarthol, miðja Vetrarbrautar, svarthol
    Tölvugerð mynd sem sýnir hvernig gasský sem nálgast risasvartholið í miðju okkar vetrarbrautar gæti tvístrast á næstu árum. Þetta er í fyrsta sinn sem dauðadæmt ský sést nálgast risasvarthol en búist er við að það tvístrist algjörlega árið 2013. Bláu línurnar sýna raunverulegar stjörnur á braut um svartholið. Myndin sýnir stöðu stjarnanna og gasskýsins árið 2021. Mynd: ESO/MPE/Marc Schartmann

Hvað í ósköpunum gengur á á þessari mynd? Ólíkt mörgum af þeim fallegu ljósmyndum sem við sýnum ykkur teiknaði listamaður þessa í tölvu.

Myndin sýnir ekki aðeins það sem listamaðurinn hefur ímyndað sér, heldur fékk hann aðstoð stjörnufræðinga við að teikna nákvæmlega það sem ekki er hægt að ljósmynda.

Á myndinni tákna bláu línurnar brautir stjarna en rauða línan sýnir slóð risavaxins gasskýs.

En í kringum hvað eru stjörnurnar og gasskýið að hreyfast? Nálægt miðju myndarinnar er gríðarþungt en ósýnilegt fyrirbæri sem við köllum svarthol. Svarthol eru ósýnileg vegna þess að þau gleypa allt sem hættir sér of nálægt þeim — líka ljós! Stjörnufræðingar vita að sum svarthol eru risastór (kallast þá risasvarthol) en þau er að finna í miðjum flestra vetrarbrauta.

Stjörnufræðingar sem notuðu sjónauka sem kallast Very Large Telescope (gætum kallað hann Mjög stóra sjónaukann), sem er í Chile í Suður Ameríku, fundu gasský sem nálgast óðfluga risasvartholið í miðju okkar Vetrarbrautar. Þetta er í fyrsta sinn sem stjörnufræðingar sjá gasský nálgast risasvarthol! Á myndinni sést það sem stjörnufræðingar telja að muni koma fyrir gasskýið árið 2021.

„Margir kannast við hugmyndina um geimfara sem verður að spaghettíi er hann nálgast svarthol. Í dag sjáum við það gerast í raunveruleikanum“ sagði stjörnufræðingurinn Stefan Gillessen. Gasskýið mun sem sagt lengjast og verða eins og spaghettí, uns svartholið gleypir það!

Í þessu myndskeiði sést hvernig svartholið mun gleypa í sig gasskýið á næstu áratugum.

Skemmtileg staðreynd: Þetta gasský er nokkrum sinnum þyngra en jörðin okkar!

Þessi frétt er unnin í góðu samstarfi við UNAWE og Space Scoop

UNAWE, Universe Awareness for Young Children Space Scoop