Krakkafréttir

Stjarna með hægan púls

  • sprengistjörnuleif, Litla Magellansskýið
    Bjarta hvíta stjarnan hægra megin á myndinni er tifstjarna, leif af stjörnu sem sprakk fyrir óralöngu. Tifstjarnan er umlukin kúlu úr leifum sprengistjörnunnar. Mynd: NASA/CXC/Univ.Potsdam/L.Oskinova et al

Skrítnir hlutir gerast þegar stjörnur verða eldsneytislausar. Eldsneytið býr ekki aðeins til ljósið og hitann frá þeim, heldur kemur það í veg fyrir að stjörnurnar falli saman undan eigin þunga! Fyrir langa löngu stóð bjarta hvíta stjarnan hægra megin á þessari nýju ljósmynd andspænis þeim ósköpum.

Þegar allur eldsneytisforði risastjarna er uppurinn, springa þær í tætlur. Kjarninn hrinur saman inn í sjálfan sig og kremur allt efni sem fyrir er svo úr verður smærri hnöttur, gríðarlega þéttur. Þetta kom fyrir stjörnurna á þessari mynd.

Eftir að stjarnan hafði hrunið saman varð hún að svokallaðri nifteindastjörnu. Nifteindastjarna er meira en tvisvar sinnum þyngri en sólin okkar en aðeins stærð við höfuðborgarsvæðið!

Sumar nifteindastjörnur, eins og sú sem hér sést, snúast og gefa frá sér orkuríka ljósgeisla út frá pólsvæðum sínum. Slíkar stjörnur kallast tifstjörnur. Við verðum aðeins vör við tif frá tifstjörnu ef ljósgeislinn beinist átt til okkar á jörðinni — eins og ljósgeisli frá vita.

Flestar tifstjörnur snúast á ógnarhraða, sumar mörgum sinnum á sekúndu. Tifstjarnan á þessari mynd er mun afslappaðari og snýst aðeins einu sinni á 18 mínútum! Stjörnufræðingar vita ekki hvers vegna.

Skemmtileg staðreynd: Þegar stjörnufræðingar urðu fyrst varir við ljóstifið frá því sem við vitum í dag að eru tifstjörnur, vissu þeir ekki hver orsökin var. Þess vegna kölluðu þeir fyrstu ljóstifin sem mældust utan úr geimnum „Litla græna karla“. Þeir veltu nefnilega fyrir sér hvort geimverur væru að senda okkur merkin!

Frekari upplýsingar

Þessi frétt kemur upphaflega frá Chandra röntgengeimsjónauka NASA.

Þessi frétt er unnin í góðu samstarfi við UNAWE og Space Scoop

UNAWE, Universe Awareness for Young Children Space Scoop