Krakkafréttir

„Feit“ og heit vetrarbrautaþyrping

  • Vetrarbrautaþyrpingin El Gordo
    Vetrarbrautaþyrpingin ACT-CL J0102-4915 á samsettri mynd Very Large Telescope ESO, SOAR sjónaukans og Chandra röntgengeimsjónauka NASA. Röntgengeislunin (blá) sýnir heita gasið í þyrpingunni. Þessi nýfundna vetrarbrautaþyrping hefur verið kölluð El Gord sem þýðir „sá stóri“ eða „sá feiti“ á spænsku. Hún samanstendur af tveimur vetrarbrautaþyrpingum sem eru að rekast saman á nokkurra milljón km hraða á klukkustund. Þyrpingin er í um sjö milljarða ljósára fjarlægð frá jörðinni. Mynd: ESO/SOAR/NASA

Hvað kemur út ef stærstu fyrirbæri alheimsins rekast saman? Risastórt og feitt fyrirbæri!

Það er nákvæmlega það sem gerðist á myndinni sem hér sést. Þarna eru tveir hópar vetrarbrauta, svokallaðar vetrarbrautaþyrpingar, sem hafa rekist saman með miklu offorsi. Úr varð risavaxin þyrping sem er svo stór að stjörnufræðingarnir hafa nefnt hana El Gordo sem þýðir „sá feiti“ á spænsku.

Myndin hér til hliðar er einmitt af El Gordo. Jafn stórar og fjarlægar þyrpingar eru sárasjaldséðar í alheiminum. „Þetta er massamesta og heitasta þyrping sem við höfum fundið hingað til svo langt úti í geimnum og líka sú sem gefur frá sér mestu röntgengeislunina“ segir stjörnufræðingurinn Felipe Menanteau.

Stjörnufræðingarnir notuðu sjónauka sem heitir Very Large Telescope, sem er í þurrustu eyðimörk í heimi Chile í Suður Ameríku, til að finna út hversu langt hún er í burtu. Í ljós kom að hún er hvorki meira né minna en sjö milljarða ljósára í burtu. Í kílómetrum talið er fjarlægðin 66 og svo 21 núll! Prófaðu að skrifa þessa tölu á blað.

Síðan notuðu stjörnufræðingarnir geimsjónauka sem heitir Chandra til að læra meira um þyrpinguna. Chandra sér röntgenljós sem heita gasið í þyrpingunni gefur frá sér.

Skemmtileg staðreynd: Vetrarbrautin okkar er hluti af stórri vetrarbrautaþyrpingu sem heitir Meyjarþyrpingin.

Þessi frétt er unnin í góðu samstarfi við UNAWE og Space Scoop

UNAWE, Universe Awareness for Young Children Space Scoop