Krakkafréttir
Krakkafréttir

Að sjá hluti í öðru ljósi

  • Centaurus A, vetrarbraut, stjörnuþoka, útvarpssporvala
    Þessi mynd samanstendur af mælingum ALMA og nær-innrauðum mælingum annars sjónauka af risaútvarpssporvölunni Centaurus A. Mælingar ALMA eru sýndar í grænum, gulum og appelsínugulum litum en þær sýna staðsetningu og hreyfingu gass í vetrarbrautinni. Þetta eru skörpustu og nákvæmustu mælingar af þessu tagi sem gerðar hafa verið. Mælingar ALMA hafa verið lagðar ofan á nær-innrauða ljósmynd SOFI mælitækisins á New Technology Telescope (NTT) sjónauka ESO. Mynd: ALMA (ESO/NAOJ/NRAO); ESO/Y. Beletsky

Þegar sólin brýst fram úr skýjunum eftir rigningu sést oft fallegur regnbogi á himninum. Það er vegna þess að í loftinu eru enn regndropar sem brjóta ljósið í alla regnbogans liti.

En ljós býr yfir fleiri leyndarmálum. Vissir þú til dæmis að ljós sem við sjáum með eigin augum er aðeins ein gerð ljóss af mörgum? Þú kannast örugglega við ýmsar gerðir en vissir kannski ekki að væru ljós, eins og útvarpsbylgjur og örbylgjur. Það er vegna þess að þegar fólk talar um ljós á það venjulega við þá tegund sem við sjáum með eigin augum, svokallað „sýnilegt ljós“.

Þótt augu okkar sjái aðeins sýnilegt ljós geta sérstakar myndavélar greint aðrar tegundir. Fyrirbæri líta allt öðruvísi út þegar við ljósmyndum þau í öðru ljósi. Sjáðu til dæmis þessa nýju mynd af vetrarbrautinni Centaurus A. Hún var sett saman úr myndum sem teknar voru með sjónaukum sem greina útvarpsbylgjur og innrautt ljós. Berðu hana saman við mynd af sömu vetrarbraut sem birtist í Space Scoop frétt fyrir tveimur vikum og tekin var í sýnilegu ljósi.

Báðar myndirnar eru af sömu vetrarbraut en samt eru þær gerólíkar. Myndin af vetrarbrautinni í sýnilegu ljósi er fallegri en báðar veita þær stjörnufræðingum mikilvægar upplýsingar. Til að skilja alheiminn til fulls verðum við að rannsaka líka allar hinar ólíku gerðir ljóss.

Fróðleg staðreynd: Aðeins um 4% af efni í alheiminum gefur frá sér ljós af einhverju tagi!

Þessi frétt er unnin í góðu samstarfi við UNAWE og Space Scoop unawe1231

UNAWE, Universe Awareness for Young Children Space Scoop