Fljúgandi hálka á Títan

14. janúar 2013

  • Títan, Satúrnus, Huygens
    Tölvuteiknuð mynd af Huygens lenda á Títan. Mynd: ESA

Þann 14. janúar fyrir átta árum (2005) sveif evrópska geimfarið Huygens í gegnum þokukenndan lofthjúp Títans, stærsta tungls Satúrnusar. Huygens varð þar með fyrsta og eina geimfarið sem lent hefur á hnetti í ytra sólkerfinu og svo langt frá jörðinni.

Huygens fékk far með Cassini geimfari NASA til Satúrnusar. Ferðalagið tók liðlega sjö ár en á jóladag árið 2004 losnaði Huygens frá Cassini og tók stefnuna á Títan. Þremur vikum síðar lenti farið á yfirborði þessa framandi en samt svo kunnuglega hnattar.

Títan er sá staður í sólkerfinu sem líkist jörðinni okkar einna mest. Það kemur kannski á óvart, sérstaklega þegar haft er í huga að þar ríkir nístingskuldi, meira en 180°C frost! Títan hefur lofthjúp eins og jörðin en miklu þykkari sem teygir sig miklu lengra út í geiminn en lofthjúpur jarðar. Þessi þokukenndi hjúpur sveipar Títan appelsínugulri móðu og felur leyndardóma hans fyrir okkur.

Þótt liðin séu átta ár frá þessum atburði eru vísindamenn en að rannska Títan út frá gögnum Huygens. Gögnin hafa gert þeim kleift að púsla saman því sem gerðist þegar kanninn lenti og setja saman tölvugert myndskeið af lendingunni.

Fyrst þegar farið skall á yfirborðinu gróf það 12 cm djúpa holu sem það svo skoppaði upp úr og rann síðan 30 til 40 sentímetra á flötu yfirborðinu. Tíu sekúndur liðu þangað til farið stöðvaðist loks.

Við lendinguna þyrlaðist upp „ryk“ sem sennilega er sá lífræni agnúði sem vitað er að fellur úr lofthjúpi Títans. Sú staðreynd að rykið þyrlaðist upp bendir til þess að lendingarstaðurinn hafi verið þurr í nokkurn tíma fyrir lendingu.

Það hvernig Huygens kanninn hreyfðist í lendingunni sýnir að á yfirborðinu er þunnt íslag. Það er sem sagt hálka á Títan!

Mynd: ESA

Um fyrirbærið

  • Nafn: Títan og Huygens
  • Tegund: Tungl

Tengt efni

Ummæli