18 kg loftsteinn á Suðurskautinu

4. mars 2013

  • loftsteinn, Suðurskautslandið
    Loftsteinn á Suðurskautslandinu. Mynd: International Polar Foundation/Vincent Debaille

Á degi hverjum falla um 20 til 40 tonn af loftsteinum til jarðar. Flestir eru smáir og falla í sjóinn eða fjarri mannabyggðum og finnast aldrei. Loftsteinar eru oftast svartir svo best er að leita þeirra þar sem þeir skera sig úr, t.d. í ljósum eyðimerkursöndum Sahara eða fannhvítum ísbreiðum Suðurskautslandsins.

Í janúar síðastliðnum var hópur átta vísindamanna frá Belgíu og Japan úr SAMBA verkefninu staddur á Nansen ísbreiðunni á austanverðu Suðurskautslandinu í leit að loftsteinum. Þar fann hópurinn stærsta loftstein sem fundist hefur á þessum slóðum í meira 25 ár.

loftsteinn, Suðurskautslandið
18 kg loftsteinn af kondrít gerð sem hópur vísindamanna fann á Suðurskautslandinu í lok janúar síðastliðins. Mynd: © International Polar Foundation

Steinninn vegur 18 kg og er svokallaður venjulegur kondrít. Kondrít eru langalgengustu loftsteinarnir; um 80% allra loftsteina sem finnast eru þeirrar gerðar. Loftsteinninn sem sprakk yfir Chelyabinsk í Rússlandi fyrir skömmu var einmitt líka kondrít. Kondrítar einkennast af fremur stórum kornum sem kallast grjónur og eru aðallega síliköt á borð við ólivín og pýroxen — byggingareiningar reikistjarnanna.

loftsteinn, Suðurskautslandið
Vísindamaður setur loftsteininn stóra í poka. Mynd: © International Polar Foundation

Leiðangur vísindamannanna stóð yfir í 40 daga. Dvalið var í 2.900 metra hæð yfir sjávarmáli í Princess Elisabeth Antarctica rannsóknarstöðinni sem International Polar Foundation starfrækir í samvinnu við Belgíu. Hægt er að lesa meira um þessa merku stöð hér.

loftsteinaleit, Suðurskautslandið
SAMBA hópurinn fyrir framan loftstein á Suðurskautslandinu. Mynd: © International Polar Foundation

Í heild fundu vísindamennirnir 425 loftsteina í leiðangrinum sem samanlagt vega 75 kg. Í dag hafa fundist rúmlega 56.000 loftsteinar víða um heim, þar af tæplega 39.000 á Suðurskautslandinu.

Mynd (efst): © International Polar Foundation/Vincent Debaille

Höfundur: Sævar Helgi Bragason

Ummæli