Flogið yfir stöðuvötn Títans

16. desember 2013

  • Norðurpóll Títans
    Norðurpóll Títans

Títan, stærsta tungl Satúrnusar, er eini staðurinn utan Jarðar sem hefur stöðuvötn. Stöðuvötnin eru reyndar ekki úr vatni eins og á Jörðinni, heldur kolvetnum eins og metani og etani enda er hitastigið á yfirborðinu –170°C.

Undanfarin ár hefur Cassini geimfar NASA flogið yfir Títan og beint ratsjá sinni að norðurheimskauti tunglsins, þar sem nánast öll vötnin eru. Vötnin eru að mestu úr metani og svo tær að mönnum hefur tekist að mæla dýpt eins þeirra, Ligeia Mare, með ratsjánni.

Ligeia Mare er um 170 metra djúpt, um 10 metrum dýpra en Hvalvatn, þriðja dýpsta stöðuvatn Íslands. Á myndum sjást líka eyjur, tangar og flóar í vatninu.

Mælingar á dýpt vatnanna hafa gert mönnum kleift að reikna út heildarrúmmál vökvanna á Títan. Útreikningarnir sýna að á Títan eru um 9.000 rúmkílómetrar af fljótandi kolvetnum, efnum sem eru dýrmæt á Jörðinni. Á Títan er, með öðrum orðum, um 40 sinnum meira af fljótandi kolvetni en í öllum olíuforða Jarðar!

Síendurteknar ferðir Cassini framhjá Títan hafa einnig gert mönnum kleift að setja saman myndskeið af Kraken Mare og Ligeia Mare, stærsta og næststærsta stöðuvatni Títans, séðum úr lofti, eins og við flygjum yfir þau. Myndirnar eru ekki í réttum lit og vötnin hafa verið lituð blá til aðgreiningar.

Mynd: NASA/JPL-Caltech/ASI/USGS

Texti: Sævar Helgi Bragason

Ummæli