Ofsafenginn fæðingarstaður stjarna

7. febrúar 2011

  • NGC 2174, geimþoka, stjörnuþoka, Óríon
    Geimþokan NGC 2174 í stjörnumerkinu Óríon. Mynd: ESA/Hubble og NASA

Hubblessjónauki NASA og ESA tók þessa ljósmynd af ofsafengnum fæðingarstað stjarna sem nefnist NGC 2174. Hér eru það einungis hæfustu stjörnurnar sem komast af.

Stjörnumyndun er mjög erfitt ferli því flest allt það hráefni sem þarf í myndun stjarna leysist upp þegar gasþokan sundrast. Í NGC 2174 sundrast þokan enn hraðar fyrir tilstilli nokkurra ungra og heitra stjarna sem blása ryki og gasi burt með sterkum sólvindum.

Þessi heitu ungviði gefa líka frá sér sterka geislun sem lýsir upp nærliggjandi gas. Gasþokan er að mestu leyti úr vetni sem útblá geislun frá heitustu stjörnunum hefur jónað. Þess vegna eru þokur sem þessi stundum nefndar röfuð vetnisský (HII svæði). Á myndinni sést aðeins hluti þokunnar því dökk rykský í forgrunni varpa skugga á glóandi gasið.

NGC 2174 er í um 6.400 ljósára fjarlægð í veiðimanninum Óríon. Hún er þó ekki hluti af Sverðþokunni frægu sem er miklu nær okkur. Þokan fannst ekki fyrr en árið 1877 þótt hún sé á besta stað í einu frægasta stjörnumerki himinsins. Var þar að verki franski stjörnufræðingurinn Jean Marie Edouard Stephan en hann fann þokuna með 80 cm spegilsjónauka stjörnustöðvarinnar í Marseille í Frakklandi.

Myndin er sett saman úr ljósmyndum sem teknar voru í gegnum fjórar mismunandi síur Wide Field Planetary Camera 2 á Hubble geimsjónaukanum. Myndir úr síu sem dregur fram jónað súrefni voru litaðar bláar en myndir úr síu sem dregur fram jónað vetni eru grænar. Myndir úr síum sem sýna brennistein annars vegar og nær-innrauða geislun hins vegar fengu báðar grænan lit. Í heild var lýsingartíminn tæpar 2,5 klukkustundir en sjónsviðið er um 1,8 bogamínútur.

Mynd vikunnar kemur frá ESA/Hubble.

Um fyrirbærið

  • Nafn: NGC 2174

  • Tegund: Ljómþoka / rafað vetnisský

  • Fjarlægð: 6500 ljósár

Myndir

Ummæli