Deyjandi stjarna umlukin eigin gasi

10. janúar 2011

  • NGC 6886, hringþoka, Örin
    Hringþokan NGC 6886 í Örinni. Mynd: ESA/Hubble og NASA

Stjörnufræðingar notuðu Hubblessjónauka NASA og ESA til að ljósmynda litla hringþoku sem nefnist NGC 6886. Hringþokur eru síðustu dauðateygjur meðalstórra stjarna (allt að átta sinnum massameiri en sólin). Þegar slík stjarna klárar vetnisforða sinn byrja ytri efnislög hennar að þenjast út og kólna. Þessi lög mynda gas- og rykkápu um deyjandi stjörnuna. Stjarnan er þó ekki tilbúin að játa sig sigraða. Hún leitar allra leiða til að falla ekki saman undan eigin þunga og endar sem hvítur dvergur. Á sama tíma eykst yfirborðshitastig stjörnunnar sem að lokum verður svo hár að frá henni berst strek útfjólublá geislun sem lýsir upp gasskelina eða hringþokuna.

Myndun hringþoka stendur venjulega yfir í tugþúsundir ára svo dauði stjarna er ekki beinlínis skjótur. Stjörnufræðingar geta rannsakað frumefnin sem finna má í þokunni og þannig fundið út efnasamsetningu stjörnunnar í upphafi. Þannig benda rannsóknir til að stjarnan sem myndaði NGC 6886 hafi upphaflega líkst til sólarinnar og innihaldið svipað magn kolefnis, niturs og neons en þyngri frumefni eins og brennistein í minni mæli.

Stjörnuáhugafólk með meðalstóran sjónauka getur séð NGC 6886 í stjörnumerkinu Örinni. Þokan er lítil en ekkert sérlega dauf. Til að sjá þetta djásn á himinhvolfinu þarf því töluverða stækkun, gott stjörnukort, dimman himinn og hliðraða sjón.

Þessi mynd var búin til úr myndum sem teknar voru með Wide Field Planetary Camera 2 á hubblessjónaukanum. Myndirnar voru teknar í gegnum síur sem hleypa í gegn ljósi frá jónuðu nitri (litað rautt), jónuðu súrefni (litað blátt) auk gulrar breiðbandssíu (litað grænt og blátt að hluta). Lýsingartíminn var 700 sekúndur, 600 sekúndur og 320 sekúndur. Sjónsviðið er aðeins 30 bogasekúndur að þvermáli.

Mynd vikunnar kemur frá ESA/Hubble og NASA.

Um fyrirbærið

  • Nafn: NGC 6886

  • Tegund: Hringþoka

  • Fjarlægð: 11000 ljósár

Myndir

Ummæli