Gömul þyrping glædd nýju lífi

2. maí 2011

  • M5, Messier 5, Höggormurinn, NGC 5904, kúluþyrping
    Messier 5 (NGC 5904) er kúluþyrping í stjörnumerkinu Höggorminum.

Á þessari mynd Hubblessjónauka NASA og ESA sést kúluþyrpingin Messier 5. Hún er ein elsta kúluþyrpingin sem tilheyrir Vetrarbrautinni okkar. Meirihluti stjarnanna í henni varð til fyrir meira en 12 milljörðum ára en óvæntir nýliðar hafa glætt þessa gömlu þyrpingu nýju lífi.

Stjörnur í kúluþyrpingum myndast úr einni og sömu gasþokunni og eldast því saman. Massamestu stjörnurnar eldast hratt og eyða eldsneyti sínu á nokkrum þúsundum ára og enda lífið sem sprengistjörnur. Í Messier 5 ættu því aðeins að vera gamlar, lágmassa stjörnur sem hafa kólnað með tímanum og breyst í rauða risa á meðan elstu stjörnurnar hafa þróast enn lengra inn á lárétta grein blárra stjarna.

Stjörnufræðingar hafa samt sem áður komið auga á margar ungar, bláar stjörnur inn á milli bjartari og eldri stjarna. Talið er að þessar ungu stjörnur, sem nefnast bláir flækingar, hafi orðið til við samruna tveggja stjarna eða við tilfærslu massa stjarna í tvístirna. Slíka atburði er auðvelt að ímynda sér í þröngum vistarverum kúluþyrpinga þar sem finna má nokkrar milljónir stjarna, mjög þétt saman.

Messier 5 er í um 24.500 ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Höggorminum. Þessi mynd var skeytt saman úr ljósmyndum frá Advanced Camera for Surveys á Hubblessjónaukanum. Myndin var búin til úr myndum sem teknar voru í gegnum bláa síu (litaðar bláar), rauða síu (litaðar grænar) og nær-innrauðri (litaðar rauðar). Heildarlýsingartími nam rúmum 1.700 sekúndum og sjónsvið myndarinnar er um 2,6 bogamínútur.

Mynd vikunnar kemur frá Hubble/ESA og NASA

Um fyrirbærið

  • Nafn: Messier 5

  • Tegund: Kúluþyrping

  • Fjarlægð: 24.500 ljósár

Myndir

Tengt efni

Ummæli