Kjalarþokan snýr aftur

4. júlí 2011

  • Kjalarþokan, NGC 3372, Kjölurinn, Stjörnumyndunarstaður
    Hluti kjalarþokunnar, NGC 3372 í stjörnumerkinu Kilinum.

Þessi mynd lítur út fyrir að vera glæsilegt abstrakt listaverk eftir færan listmálara en er í raun ljósmynd Hubblessjónauka NASA og ESA af litlu svæði í Kjalarþokunni. Hluti þokunnar var á 20 ára afmælismynd Hubbles en á þessari mynd sést furðulegt landslag hennar enn betur.

Kjalarþokan er stjörnumyndunarsvæði í um 7.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Kilinum. Þar skína ungar stjörnur svo ákaft að geislun frá þeim heggur skörð í gasið og kring og myndar sérkennilega dogadregna þræði. Rykhnoðrarnir sem sjást ofarlega hægra megin á myndinni og minna á blekbletti urðu til á þennan hátt. Hugmyndir eru uppi um að þetta séu hýði stjarna sem eru að myndast.

Kjalarþokan er að mestu úr vetni en þar eru líka fleiri efni eins og súrefni og brennisteinn. Það sýnir að hluti þokunnar er myndaður úr leifum eldri kynslóða stjarna þar sem flest efni þyngri en helín verða til þegar stjörnur springa.

Björtustu stjörnurnar á myndinni tilheyra ekki Kjalarþokunni heldur eru þær milli okkar og þokunnar.

Þessi mynd var sett saman úr myndum sem teknar voru með Wide Field Planetary Camera 2 á Hubblessjónaukanum. Myndir teknar í gegnum bláa síu voru litaðar bláar og myndir teknar í gegnum gula/appelsínugula síu voru litaðar rauðar. Sjónsviðið spannar um 2,4 x 1,3 bogamínútur.

Mynd vikunnar kemur frá ESA/Hubble og NASA

Um fyrirbærið

  • Nafn: Kjalarþokan / NGC 3372

  • Tegund: Rafað vetnisský

  • Stjörnumerki: Kjölurinn

  • Fjarlægð: 7.500 ljósár

Myndir

Tengt efni

Ummæli