Vetrarbrautir í svermi stjörnuþyrpinga

19. september 2011

  • NGC 4874, Bereníkuhaddur, Haddþyrpingin
    NGC 4874 er sporvöluvetrarbraut í stjörnumerkinu Bereníkuhaddi í um 350 milljón ljósára fjarlægð.

Í miðju vetrarbrautahóps í stjörnumerkinu Bereníkuhaddi, er vetrarbraut sem er umlukin stjörnuþyrpingum. NGC 4874 er risastór sporvöluvetrarbraut, um það bil 10 sinnum stærri en vetrarbrautin okkar, í miðju Haddþyrpingarinnar. Með gríðarsterku þyngdarsviði sínu nær hún að halda um 30.000 kúluþyrpingum á braut um sig, meira en nokkur önnur vetrarbraut sem við þekkjum. Hún hefur einnig klófest nokkrar dvergvetrarbrautir.

Á þessari mynd Hubblessjónaukans er NGC 4874 bjartasta fyrirbærið, hægra megin í rammanum, stjörnulaga og umlukin þokulaga hjúpi. Nokkrar aðrar vetrarbrautir úr hópnum eru einnig sýnilegar og birtast sem fljúgandi furðuhlutir á sveimi í kringum NGC 4874. En það merkilega við þessa mynd er að nánast allir punktarnir á henni eru í raun og veru kúluþyrpingar sem tilheyra vetrarbrautinni. Hver og ein þessara þyrpinga innihalda mörg hundruð þúsund stjörnur.

Stjarneðlisfræðingar hafa nýlega uppgötvað að sumir þessara punkta eru ekki kúluþyrpingar heldur samþjappaðar dvergvetrarbrautir, sem einnig eru í klóm NGC 4874. Þær eru aðeins um 200 ljósár í þvermál og að mestu úr gömlum stjörnum og virðast bæði bjartari og stærri útgáfur af kúluþyrpingum. Þær eru taldar kjarnar lítill sporvöluvetrarbrauta sem hafa glatað gasi og stjörnum vegna sterks þyngdartogs annarra vetrarbrauta í þyrpingunni.

Á myndinni sjást líka fjölmargar fjarlægari vetrarbrautir sem ekki eru tilheyra Haddþyrpingunni og líta út fyrir að vera litlir kámugir blettir í bakgrunninum. Vetrarbrautirnar í Haddþyrpingunni eru í um 350 milljón ljósára fjarlægð en þær í bakgrunninum eru miklu lengra í burtu. Ljósið frá þeim hefur verið nokkur hundruð milljónir til milljarða ára að berast okkur.

Sérkennilegast er þó mjög dauf blá slóð gervihnattar sem liggur þvert yfir myndina, frá efra vinstra horninu og niður til hægri. Hubble sér aðeins lítinn hluta af himninum í einu svo slóðir sem þessar eru afar sjaldséðar.

Þessi mynd var búin til úr myndum sem teknar voru á sýnilega og nær-innrauða hluta litrófsins með Advanced Camera for Surveys á Hubblessjónaukanum. Sjónsviðið spannar 3,3 bogamínútur af himninum.

Mynd: NASA/ESA og Hubble

Um fyrirbærið

  • Nafn: NGC 4874

  • Tegund: Sporvöluvetrarbraut

  • Fjarlægð: 350 milljón ljósár

  • Stjörnumerki: Bereníkuhaddur

Myndir

Tengt efni

Ummæli