Hubble skoðar leyndardómsfulla kúluþyrpingu

3. október 2011

  • Messier 53, NGC 5024, Kúluþyrping, Bereníkuhaddur
    Messier 53 eða NGC 5024 er kúluþyrping í stjörnumerkinu Bereníkuhaddi. Hún er í um 60.000 ljósára fjarlægð.

Þúsundir stjarna mynda þessa kúluþyrpingu, Messier 53, sem Hubblessjónaukinn hefur náð hnífskarpri mynd af. Þyrpingin er bundin þétt saman af þyngdarkraftinum og af þeim sökum nánast kúlusamhverf en þéttist þegar nær dregur miðjunni.

Þessar risavöxnu glitrandi kúlu eru síður en svo sjaldséðar. Í Vetrarbrautinni okkar eru þekktar um 150 kúluþyrpingar og er Messier 53 þeirra á meðal. Hún er í útjaðri Vetrarbrautarinnar, nánast jafnlangt frá miðju hennar og frá sólinni, þar sem finna má fjölmargar aðrar kúluþyrpingar. Þótt kúluþyrpingar séu tiltölulega algengar sagði William Herschel þær „ein fallegustu fyrirbæri sem ég man eftir að hafa séð á himinhvolfinu“. Auðvelt er að sjá hvað hann á við.

Kúluþyrpingar eru mun eldri og stærri en lausþyrpingar. Almennt er talið að þær innihaldi mun eldri og rauðari stjörnur en mun færri bláar, massamiklar stjörnur. Messier 53 hefur hins vegar komið stjörnufræðingum á óvart með óvenjumörgum stjörnum sem nefnast bláir flækingar.

Við fyrstu sýn virðist sem bláir flækingar, sem eru ungar stjörnur, séu í andstöðu við kenningar um þróun stjarna. Talið er að allar stjörnur í kúluþyrpingum myndist samtímis og fylgi því allar tiltekinni stefnu sem ákveðin er með aldri þyrpingarinnar og byggir á massa stjarnanna. En bláir flækingar fylgja ekki þessari reglu. Þeir eru nefnilega mun bjartari og miklu yngri en þeir ættu að vera! Þótt margt sé enn á huldu um þá, má líklega rekja uppruna þeirra til árekstra stjarna í þéttustu svæðunum í miðju kúluþyrpinga.

Þessi mynd var sett saman úr myndum sem teknar voru á sýnilega og innrauða sviðinu með Advanced Camera for Surveys á Hubblessjónaukanum. Sjónsviðið spannar um 3,4 bogamínútur af himninum.

Mynd: NASA/ESA og Hubble

Um fyrirbærið

  • Nafn: Messier 53 / NGC 5024

  • Tegund: Kúluþyrping

  • Fjarlægð: 60.000 ljósár

  • Stjörnumerki: Bereníkuhaddur

Myndir

Þysjanleg mynd

Þysjanleg mynd

Tengt efni

Ummæli