Fyrsta kúluþyrpingin utan okkar vetrarbrautar

7. nóvember 2011

  • M54, Messier 54, Bogmaðurinn, Kúluþyrping
    Messier 54 er kúluþyrping í stjörnumerkinu Bogmanninum. Hún liggur í um 90.000 ljósára fjarlægð.

Fyrirbærið sem sést á þessari mynd er Messier 54. Þessi þétti og daufi hópur lítur út eins og hver önnur kúluþyrping en hún var sú fyrsta sem fannst utan okkar vetrarbrautar. Það var stjörnufræðingurinn frægi Charles Messier sem fann hana árið 1778 en Messier 54 tilheyrir dvergvetrarbraut í Bogmanninum sem er fylgivetrarbraut okkar vetrarbrautar.

Á þeim tíma hafði Messier ekki hugmynd um mikilvægi uppgötvunar sinnar. Hún var raunar ekki talin mikilvæg fyrr en um tveimur öldum síðar, árið 1994, þegar stjörnufræðingar áttuðu sig á að Messier 54 tilheyrði ekki okkar eigin vetrarbraut heldur annarri lítilli. Nútímarannsóknir benda til að vetrarbrautin og þyrpingin séu í um 90.000 ljósára fjarlægð — meira en þrisvar sinnum lengra en sólin er frá miðju Vetrarbrautarinnar.

Þótt þyrpingin sé fyrir utan Vetrarbrautina okkar verður hún hluti af þeirri síðarnefndu einhvern tímann í framtíðinni. Sterkir þyngdarkraftar Vetrarbrautarinnar toga dvergvetrarbrautina til sín hægt og rólega svo á endanum sameinast þær.

Þessi mynd er sett saman úr myndum sem teknar voru með Advanced Camera for Surveys á Hubblessjónaukanum. Ljós sem barst í gegnum gula/appelsínugula síu voru litaðar bláar en ljós sem féll í gegnum nær-innrauða síu voru litaðar rauðar. Heildarlýsingartími nam tæpum tveimur klukkustundum en sjónsviðið spannar 3,4 x 3,4 bogamínútur af himninum.

Mynd: NASA/ESA og Hubble

Um fyrirbærið

  • Nafn: Messier 54

  • Tegund: Kúluþyrping

  • Fjarlægð: 90.000 ljósár

  • Stjörnumerki: Bogmaðurinn

Myndir

Þysjanleg mynd

Tengt efni

Ummæli