Í maga hvalsins

14. nóvember 2011

  • Hvalsvetrarbrautin, NGC 4631, Veiðihundarnir, Þyrilvetrarbraut
    Hvalsvetrarbrautin eða NGC 4631 er þyrilvetrarbraut í stjörnumerkinu Veiðihundunum. Hún liggur í um 30 milljóna ára ljósára fjarlægð.

Hubblessjónauki NASA og ESA hefur skyggnst inn í NGC 4631 sem er betur þekkt sem Hvalsvetrarbrautin. Í henni hefur hrina stjörnumyndunar lýst upp miðjuna en þar sjást miklir dökkir rykþræðir sem liggja milli okkar og miðjunnar. Virknin dvínar eftir því sem utar dregur. Þar eru færri stjörnur og minna ryk en stöku stjörnumyndunarsvæði engu að síður.

Hvalsvetrarbrautin er í um 30 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Veiðihundunum. Hún er þyrilvetrarbraut, svipuð Vetrarbrautinni okkar. Frá okkar sjónarhóli er Hvalurinn á rönd. Þess vegna sjáum við glóandi miðju hennar í gegnum rykuga þyrilarmana. Vetrarbrautin dregur nafn sitt af því að í gegnum sjónauka minnir miðbunga hennar og ósamhverf lögun á hval.

Í miðjunni hafa margar heitar, bláar og skammlífar stjörnur — minnsta átta sinnum massameiri en sólin — endað sem sprengistjörnur. Við sprengingarnar gusast heitt gas um vetrarbrautina og geta sjónaukar á borð við XMM-Newton röntgengeimsjónauka ESA greint það. Með því að bera saman sýnilegar og nær-innrauðar ljósmyndir Hubble geimsjónaukans við mælingar á öðrum bylgjulengdum geta stjörnufræðingar dregið upp mynd af sögu fyrirbærisins.

Mælingarnar varpa skýrara ljósi á uppruna þeirrar miklu stjörnumyndunarhrinu sem hefur átt sér stað í vetrarbrautinni. Fyrir tilstuðlan þyngdarkraftsins sýgur vetrarbrautin til sín efni utan frá en innan í henni verða til kekkir vegna gagnverkunar við aðrar vetrarbrautir í nágrenninu. Úr verða þéttari svæði þar sem stjörnur byrja að myndast. Á sama hátt og steypireyður, stærsta lífvera jarðar, getur hámað í sig agnarsmátt svif getur Hvalsvetrarbrautin orðið svo uppfull af gasi og ryki að það hrindir af stað mikilli stjörnumyndun.

Mynd: NASA/ESA og Hubble

Um fyrirbærið

  • Nafn: Hvalsvetrarbrautin / NGC 4631

  • Tegund: Þyrilvetrarbraut

  • Stjörnumerki: Veiðihundarnir

  • Fjarlægð: 30 milljón ljósár

Myndir

Þysjanleg mynd

Tengt efni

Ummæli