Tunglið notað sem spegill — Hubble fylgist með þvergöngu Venusar í endurspegluðu ljósi

7. maí 2012

  • Tycho, Tunglið, Þverganga, Venus
    Myndin sýnir árekstrargíginn Tycho á tunglinu. Myndin er tekin til undirbúnings á rannsóknum í tengslum við þvergöngu Venusar 5.-6. júní 2012. Mynd: ESA/Hubble & NASA.

Hér sést eitt gígóttasta svæði tunglsins en það inniheldur meðal annars árekstrargíginn Tycho. Stjarneðlisfræðingar beindu reyndar ekki Hubblessjónaukanum í átt að tunglinu til að rannsaka Tycho heldur var myndin tekin við undirbúning fyrir þvergöngu Venusar 5-6 júní næstkomandi.

Hubble getur ekki horft í átt að sólinni svo stjarneðlisfræðingar ætla að beina sjónaukanum að tunglinu og nota það sem spegil til að fanga endurspeglað sólarljós. Á meðan þvergöngunni stendur mun lítill hluti þess ljóss hafa smeygt sér í gegnum lofthjúp Venusar. Í þessu ljósi vonast menn til að finna fingraför efnanna sem byggja upp lofthjúp plánetunnar.

Þessar athuganir munu líkja eftir aðferð sem nú þegar er notuð til þess að rannsaka lofthjúp reikistjarna utan sólkerfisins þegar þær ganga fyrir sínar móðurstjörnur. Við mælingar á þvergöngu Venusar vita stjörnufræðingar hins vegar hver efnin í lofthjúpnum eru og að hann er gersnauður lífi. Hins vegar geta vísindamennirnir notað atburðinn til að kanna hvort aðferð þeirra henti til að greina dauf fingraför lofthjúps fjarreikistjörnu sem líkist jörðinni.

Myndin sýnir svæði sem er um 700 kílómetrar í þvermál og fyrirbæri sem eru allt niður í 140 metrar í þvermál. Efst á myndinni er gígurinn Tycho sem myndaðist þegar loftsteinn skall á tunglinu fyrir um 100 milljónum ára. Ljósu slóðirnar sem stefna frá gígnum urðu til þegar efni skvettist út frá árekstrarsvæðinu strax eftir áreksturinn. Tycho er um 80 kílómetrar í þvermál og gígbarmurinn 5 km hár.

Stjörnufræðingum gefst aðeins eitt tækifæri til að rannsaka þvergönguna svo mikilvægt er að skipuleggja mælingarnar vel. Hluti skipulagningarinnar er fólgin í þessum athugunum á tunglinu sem fram fóru þann 11. janúar 2012.

Þetta er í síðasta skipti á þessari öld sem stjörnuáhugamenn geta séð Venus ganga fyrir sólina þar sem næsta þverganga mun ekki eiga sér stað fyrr en árið 2117.

Þessi mynd var tekin með Advanced Camera for Surveys á Hubblessjónaukanum. Bætt var inn í eyður með gögnum frá sjónaukum á jörðinni.

Mynd: NASA og ESA/Hubble

Um fyrirbærið

  • Nafn: Tycho

  • Tegund: Árekstragígur

  • Fjarlægð: 384.400 km

Myndir

Þysjanleg mynd

Tengt efni

Ummæli