2001 Mars Odyssey

  • mars odyssey
    2001 Mars Odyssey
Helstu upplýsingar
Skotið á loft: 7. apríl 2001
Brautarinnsetning:
24. október 2001
Eldflaug:
Delta II
Massi:
725 kg
Tegund:
Brautarfar
Hnöttur:
Mars
Geimferðastofnun: NASA
Heimasíða:
2001 Mars Odyssey

Lofthemluninni lauk í janúar 2002 og söfnun gagna hófst tæpum mánuði síðar.

Upphaflega kallaðist Mars Odyssey geimfarið Mars Surveyor 2001 Orbiter en var breytt í 2001 Mars Odyssey til að heiðurs Arthur C. Clarke og skáldverkum hans. Geimfarinu var í fyrstu ætlað að eiga systurfar, Mars Surveyor 2001 Lander, en för þess var frestað í maí árið 2000 eftir misheppnuðu leiðangra Mars Climate Orbiter og Mars Polar Lander árið 1999. Mars Surveyor 2001 reis úr eigin öskustó árið 2007 þegar því var skotið á loft undir heitinu Phoenix. Phoenix geimfarið lenti svo heilu á höldnu á norðurheimskautssvæði Mars þann 25. maí 2008 og uppgötvaði fljótlega eftir það vatnsís undir lendingarsvæðinu.

Geimfarið er enn á braut um Mars og hringsólar á nærri hringlaga braut umhverfis pólsvæði reikistjörnunnar á tæpum 120 mínútum í um 400 km hæð. Meginleiðangrinum lauk í ágúst 2004 eða eftir eitt Marsár á braut um reikistjörnuna.

Markmið 

Helstu markmið 2001 Mars Odyssey voru að:

  • Kortleggja hnattrænt efnasamsetningu og dreifingu steinefna á yfirborði Mars.
  • Ákvarða magn vetnis undir yfirborðinu. Ef vetni fyndist í miklu magni grunnt undir yfirborðinu er líklegt að þar sé talsvert magn vatnsíss.
  • Afla upplýsinga um uppbyggingu yfirborðsins.
  • Fylgjast með geislun milli jarðar og Mars og við Mars og varpa ljósi á áhrif hennar á menn

2001 Mars Odyssey uppfyllti öll meginmarkmið sín í ágúst 2004 eftir eitt Marsár á braut um reikistjörnuna. Leiðangurinn var formlega framlengdur þann 24. ágúst 2004. Í dag gegnir Mars Odyssey mestmegnis hlutverki samskiptatungls milli jarðar og lendingarfaranna Spirit, Opportunity og Phoenix á yfirborðinu og endurvarpar yfir 85% af gögnum þessara geimfara til jarðar.

Mælitæki

Til þess að uppfylla markmið sín eru þrjú vísindatæki um borð í 2001 Mars Odyssey. Af þeim eru tvö enn starfhæf.

  • Mars Radiation Environment Experiment (MARIE) – Geislunarmælir sem mældi og greindi geislunina á leiðinni til Mars og á braut um reikistjörnuna. Þannig varpaði mælirinn ljósi á áhrif þessarar geislunar á umhverfið og hvað geimfarar framtíðarinnar þyrftu að varast. Mælirinn hafði 68 gráðu sjónsvið og safnaði gögnum þar til öflugt sólgos sló það út þann 28. október 2003. MARIE hefur ekki getað aflað gagna upp frá því en talið er að agnir sólvindsins hafi eyðilagt tölvubúnað mælisins.
  • Thermal Emission Imaging System (THEMIS) – Myndavélakerfi sem tekur bæði myndir í sýnilegu ljósi og litrófsmyndir. Myndavélin var notið til að kortleggja steinefni yfirborðsins og dreifingu þeirra. Þessi litrófsmyndavél gerði vísindamönnum kleift að finna ýmis steinefni sem myndast í vatni og setja þau í jarðfræðilegt samhengi. Kortin gerðu reikistjörnufræðingum kleift að ákvarða jarðmyndunarferli í fyrndinni þegar rennandi vatn flæddi um Mars. Kortin voru ennfremur nýtt til að velja lendingarstaði Marsjeppanna Spirit og Opportunity. Sá hluti myndavélakerfisins sem tekur myndir í sýnilegu ljósi brúaði bilið milli korta Viking faranna og þeirra sem MOC myndavélin í Mars Global Surveyor útbjó.
  • Gamma-Ray Spectrometer (GRS) – Litrófsmælir sem er í raun gammageislanemi, nifteindamælir og háorkunifteindanemi. GRS var notaður til að greina efnasamsetningu yfirborðsins og mæla magn og dreifingu vetnis, kísils, járns, natríums, þóríums og klórs. Þekking á magni og dreifingu þessara frumefna á yfirborðinu gerir reikistjörnufræðingum kleift að draga upp mynd af þróunarsögu Mars. Áhugi á vetni var sér í lagi mikill því uppgötvun á því hraðar leitinni að vatni. Þetta mælitæki getur greint vatn grunnt undir yfirborði Mars.

Uppgötvanir

Mars Odyssey fann sterkar vísbendingar um talsvert magn vatnsíss grunnt undir yfirborði Mars og hvernig hann breytist árstíðabundið. Geimfarið útbjó kort af dreifingu vantsíssins og var meðal annars lendingarstaður Phoenix geimfarsins valinn út frá þessari kortlaggningu. Phoenix staðfesti síðan uppgötvun Mars Odyssey þegar það uppgötvaði vatnsís undir jarðveginum á lendingarsvæði sínu.

Þessu til viðbótar leiddu rannsóknir Mars Odyssey í ljós jarðmyndanir og steinefni sem hafa myndast í vatni. Sú þekking hjálpar einnig til við að útskýra jarð- og loftslagssögu Mars.

Heimildir

  1. 2001 Mars Odyssey. NASA/JPL. Sótt 23.06.08.
  2. 2001 Mars Odyssey. The Planetary Society. Sótt 23.06.08.
  3. Mission Success: The Magic of Mars Odyssey. NASA/JPL. Sótt 23.06.08.

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2010). 2001 Mars Odyssey. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/solkerfid/geimferdir/2001-mars-odyssey (sótt: DAGSETNING).