LADEE

Lunar Atmosphere and Dust Environment Explorer

  • ladee, geimfar, tunglið
    Gervitunglið LADEE á sveimi um tunglið. Mynd: NASA
Helstu upplýsingar
Skotið á loft: 6. september 2013
Lengd leiðangurs:
100 dagar (allt að 9 mánuðir)
Eldflaug:
Minotaur V
Massi:
130 kg
Tegund:
Brautarfar
Hnöttur:
Tunglið
Geimferðastofnun: NASA
Heimasíða:
LADEE

LADEE var skotið á loft með Minotaur V eldflaug þann 6. september 2013 frá Wallops flugstöðinni í Virginíu í Bandaríkjunum, þar sem Goddard geimferðamiðstöð NASA hefur eldflaugapall og geimskot fara stöku sinnum fram.

LADEE er lítið gervitungl og vegur aðeins 130 kg, þar af eru mælitækin innan við 20 kg. Kostnaður við það nemur aðeins um 100 milljónum dollara.

LADEE verður um tvo mánuði að komast á heppilega braut um tunglið og prófa mælitækin áður en rannsóknir hefjast formlega en þær munu standa yfir í að minnsa kosti 100 daga.

Gervitunglið verður á nærri hringlaga braut í 20-60 km hæð yfir miðbaug tunglsins með 113 mínútna umferðartíma. Eftir að rannsóknum lýkur verður gervitunglinu komið á hærri braut fyrir tæknitilraunina sem stendur hugsanlega yfir í um 9 mánuði.

Markmið

Meginmarkmið LADEE eru þrjú:

  • Að mæla þéttleika, efnasamsetningu og tímaháðar breytingar á næfurþunnum lofthjúpi tunglsins áður en menn hafa frekari áhrif á hann.

  • Að finna út hvort ljóminn sem Apollo tunglfararnir sáu í rúmlega 10 km hæð yfir yfirborðinu sé natríumbjarmi eða af völdum ryks.

  • Að mæla og greina stærð, rafhleðslu, dreifingu rafhlaðinna rykagna við tunglið og meta líkleg áhrif þeirra á tunglrannsóknir og mögulegar stjörnuathuganir frá tunglinu.

Lofthjúpur tunglsins er tíu billjón (tíu þúsund milljarðs) sinnum þynnri en lofthjúpurinn okkar — raunar bara örfá atóm á hvern rúmsentímetra. „Loftið“ er blanda argon-40 samsætu, sem myndast við hrörnun geislavirkra efna í innviðum tunglsins og seytlar upp úr yfirborðinu, auk efna eins og helíums, natríums og kalíums sem koma frá sólvindinum og geimörðum sem rekast á tunglið.

Mælitæki

Í LADEE eru þrjú mælitæki og ein tæknitilraun:

  • Neutral Mass Spectrometer (NMS) — Massagreinir sem gerir mælingar á úthvolfi tunglsins. NMS byggir á SAM efnagreiningartækinu í Marsjeppanum Curiosity.

  • UV-Vis Spectrometer (UVS) — Litrófsriti fyrir sýnilegt og útfjólublátt ljós sem mælir efnasamsetningu ryksins og lofthjúpsins. UVS byggir á samskonar litrófsrita sem var um borð í LCROSS.

  • Lunar Dust EXperiment (LDEX) — Rykmælir. Tækið byggir á samskonar tækjum sem eru eða voru um borð í Galíleó, Ulysses og Cassini geimförunum.

LADEE á einnig að gera prófa nýja samskiptaaðferð við jörðina sem gæti aukið verulega gagnaflutning milli gervitungla og jarðar í framtíðinni.

Heimildir

  1. NASA.gov — LADEE: Lunar Atmosphere and Dust Environment Explorer

Höf. Sævar Helgi Bragason