Dyngjur

  • ólympusfjall, olympus mons, stærsta fjall sólkerfisins, Ísland
    Ólympusfjall (Olympus Mons) á Mars er hæsta fjall sólkerfisins

Á jörðinni eru dyngjur algengastar á Íslandi en hvergi eins stórar og á Hawaii þar sem eru stærstu eldfjöll heims. Hinar allra stærstu eru Mauna Loa og Mauna Kea, samvaxnar dyngjur sem mynda Hawaiieyju, sem rísa samanlagt næstum 10 km upp frá rótum á hafsbotni og gnæfa rúma 4 km yfir sjávarmál. Á kolli Mauna Kea fjalls eru aðstæður til stjarnvísindarannsókna hinar ákjósanlegustu og eru þar margir af stærstu stjörnusjónaukum jarðar. Stærsta þekkta eldfjall sólkerfisins, Ólympusfjall á Mars, er 25 km há og 600 km breið dyngja.

Ætla má að dyngjugos hefjist sem flæðigos á stuttri eða langri sprungu. Þegar líður á gosið einskorðast virknin við eitt gosop. Kvikan sem berst upp á yfirborðið er gjarnan 1200° heitt ólivínþóleiít basalt, en sumar smærri dyngjur eru úr pikríti.

Vegna þess hve kvikan er heit og þunnfljótandi er hún ekki mjög sprengivirk. Þess vegna verður til nær engin gjóska. Gastegundirnar í kvikunni mynda gjarnan mjög tignarlega kvikustróka sem minna einna helst á gosbrunnum úr glóandi hrauni.

Kvikan vellur ekki endilega úr gosrásinni yfir gígbarmana, heldur kraumir hún í hrauntjörn í gígnum og rennur undir storknuðu hrauni í lokuðum rásum um göng og hella. Hraunið kemur svo fram út úr þeim hér og þar á hraunbrúninni. Þar storknar hraunið sem þunn helluhraunlög. Hraundyngjur eru þess vegna lagskiptar eða beltaðar þar sem hver hraunlagið liggur yfir öðru. Algengt þykkt beltanna er 0,5 til 1 metri, stundum minni[2].

Íslenskar dyngjur

Á Íslandi hafa milli 20-30 dyngjur orðið til á nútíma innan eldstöðvakerfa eða við jaðra þeirra, eingöngu á rekbeltunum frá Reykjanesskaga að Langjökli og til Norðausturlands [1][5]. Flestar urðu þær til fyrir 6000-11.000 árum, eða skömmu eftir að ísaldarjökul leysti og hvarf af landinu. Þá lyftist landið hratt vegna fargminnkunar sem leiddi til mikilla flæðigosa. Nokkrar dyngjur eru eldri, svo sem Ok við Kaldadal, Vaðalda í Ódáðahrauni og Lyngdalsheiði sem gusu á hlýskeiðum ísaldar. Þá rann líka basalthraunið (grágrýtið) sem Reykjavík stendur á úr Mosfellsheiði, dyngju sem hæst rís 410 metra yfir sjávarmál í Borgarhólum. Yngsta dyngjan á Íslandi er hraunbungan í Surtsey sem myndaðist árið 1964-67.

Íslensku dyngjurnar eru mjög misstórar. Þær minnstu eru á bilinu 0,01 til 2 km3 að rúmmáli (t.d. Skálafell og Selvogsheiði), á meðan hinar stærstu eru allt að 25 km3 að rúmmáli.  Stærstar eru Trölladyngja í Ódáðahrauni og Skjaldbreiður, en þær rísa hvor um sig rúmlega 500 metra yfir umhverfi sitt.

Skjaldbreiður

Skjaldbreiður er hraunskjöldur (e. lava shield) sem rís um 1060 metra yfir sjávarmál. Hún þykir ein sú fegursta á Íslandi og er mikið prýði þar sem hún blasir við í norðri séð frá Þingvallalægðinni.

Skjaldbreiður varð sennilega til í einu langvinnu og rólegu flæðigosi fyrir rúmlega 9000 árum, skömmu eftir að jökull hvarf úr Þingvalladældinni. Þetta sýnir C14-aldursgreining á koluðum gróðri í jarðvegssniði undir Miðfellshrauni við útfall Sogsins. Rúmmál fjallsins og hraunbreiðunnar í kring er um 17 km3, en talið er að fjallið allt hafi myndast í einu gosi. Í dyngjugosum kemur upp fremur lítið hraunmagn á tímaeiningu, aðeins um 5 til 10 rúmmetrar á sekúndu, svo það hefur tekið 50 til 100 ár að mynda þessa tignarlegu dyngju.

Í hvirfli Skjaldbreiðar er gígur, 300 metrar í þvermál og 50 metra djúpur. Hliðarhalli fjallsins er dæmigerður fyrir dyngjur, 7 gráður þar sem hann er mestur.

Vatnið í Þingvallavatni er að mestu komið frá Langjökli. Áður en Skjaldbreiður myndaðist rann jökulvatn óhindrað út í vatnið, en þegar fjallið myndaðist lokaði hraunið vatnið af og hindraði streymi jökulvatns ofanjarðar. Nú rennur jökulvatnið neðanjarðar, síast í Skjaldbreiðarhrauni og stígur upp blátært um sprungur í Vellankötlu ú norðanverðu Þingvallavatni. Vatnið er um 20 til 30 ár á leið frá Langjökli í gegnum jarðlögin og inn í Þingvallavatn.

Jónas Hallgrímsson, náttúrufræðingur og skáld, ferðaðist um Ísland sumarið 1841. Á ferð sinni um Þingvallasvæðið villtist hann frá ferðafélögum sínum og orti kvæðið Fjallið Skjaldbreiður sem birtist fyrst í 8. árgangi Fjölnis árið 1845. Í ljóðinu bregður skáldið upp skemmtilegri mynd af sögu svæðisins, tilurð Skjaldbreiðar og þátt þess í myndun Þingvallavatns. Fyrsta erindið er svohljóðandi:

Fanna skautar faldi háum,

fjallið, allra hæða val;

hrauna veitir bárum bláum

breiðan fram um heiðardal.

Löngu hefur Logi reiður

lokið steypu þessa við.

Ógna-skjöldur bungubreiður

ber með sóma rjettnefnið.

Fallgígar

Fallgígar (pit craters) eru kringlótt eða ílöng op í hraunhellu sumra dyngja sem myndast hefur þegar bráðin kvika streymir burt undan hrauni sem storknað hefur í hrauntjörn eða hraunrás. Á Íslandi eru fallgígar einkum í eða við toppgígana, en í sprungumsveimum í Hawaiidyngjunum. Stærð þeirra er mjög misjöfn, frá örfáum metrum upp í kílómetra í þvermál og allt að 300 metrar að dýpt.[3]

Fallgígar finnast víða í íslenskum dyngjum, t.d. í Kollóttudyngju í Ódáðahrauni og Þeistareykjabungu. Í toppgíg Kollóttudyngju eru tveir fallgígar, sá stærri 150 metra breiður og 60-70 metra djúpur, en sá minni aðeins nokkurra metra djúpur.[3]

Grófur samanburður á dyngjum Íslands og Hawaii

Hawaiieyjur, líkt og Ísland, hafa orðið til við síendurtekin gos yfir heitum reit. Hawaiidyngjurnar eru þó harla ólíkar íslensku systrum sínum:

  • Hawaiidyngjurnar eru af allt öðrum stærðarflokki en hinar íslensku. Íslensku dyngjurnar ná vart 700 metra hæð á meðan Hawaiiísku dyngjurnar eru nokkurra km háar.

  • Hawaiidyngjurnar eru oft samvaxnar, þ.e. fleiri en ein dyngja, t.d. Mauna Loa og Mauna Kea. Sú íslenska dyngja sem líkist Hawaiidyngjunum hvað mest er Þeistareikjabunga, en hún er samsett úr að minnsta kosti þremur dyngjum.

  • Hawaiidyngjurnar skortir hið reglulega hringform sem einkennir íslenskar dyngjur.

  • Hawaiidyngjurnar hafa myndast við síendurtekin gos á löngum tíma. Íslensku dyngjurnar eru hins vegar líklegast myndaðar í einu gosi.

  • Fallgígar á Hawaii myndast einkum á sprungusveimum í dyngjunum, en í eða við toppgíga íslenskra dyngna.

Heimildir

  1. Ari Trausti Guðmundsson og Ragnar Th. Sigurðsson. 2004. Íslenskur jarðfræðilykill. Mál og menning, Reykjavík.
  2. Guðmundur Kjartansson. 1966. Stapakenningin og Surtsey. Náttúrufræðingurinn 36 (1-2), bls. 1-96.
  3. Kristján Geirsson. 1989. Fallgígar. Náttúrufræðingurinn 59 (2), bls. 93-102. 
  4. Stephen Marshak. 2005. Earth: Portrait of a Planet, 2. útgáfa. W. W. Norton & Company, New York.
  5. Þorleifur Einarsson. 1991. Jarðfræði: Myndun og mótun lands. Mál og menning, Reykjavík.

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2010). Dyngjur. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/solkerfid/jordin/dyngjur (sótt: DAGSETNING).