Skjaldbreiður

Skjaldbreiður er dyngja sem rís um 1060 metra yfir sjávarmál. Hún þykir ein sú fegursta á Íslandi og er mikið prýði þar sem hún blasir við í norðri séð frá Þingvallalægðinni.

Skjaldbreiður varð til í rólegu flæðigosi fyrir rúmlega 9000 árum, skömmu eftir að jökull hvarf úr Þingvalladældinni. Þetta sýnir C14-aldursgreining á koluðum gróðri í jarðvegssniði undir Miðfellshrauni við útfall Sogsins. Rúmmál fjallsins og hraunbreiðunnar í kring er um 17 km3, en talið er að fjallið allt hafi myndast í einu gosi. Í dyngjugosum kemur upp fremur lítið hraunmagn á tímaeiningu, aðeins um 5 til 10 rúmmetrar á sekúndu, svo það hefur tekið 50 til 100 ár að mynda þessa tignarlegu dyngju.

Í hvirfli Skjaldbreiðar er gígur, 300 metrar í þvermál og 50 metra djúpur. Hliðarhalli fjallsins er dæmigerður fyrir dyngjur, 7 gráður þar sem hann er mestur.

Vatnið í Þingvallavatni er að mestu komið frá Langjökli. Áður en Skjaldbreiður myndaðist rann jökulvatn óhindrað út í vatnið, en þegar fjallið myndaðist lokaði hraunið vatnið af og hindraði streymi jökulvatns ofanjarðar. Nú rennur jökulvatnið neðanjarðar, síast í Skjaldbreiðarhrauni og stígur upp blátært um sprungur í Vellankötlu ú norðanverðu Þingvallavatni. Vatnið er um 20 til 30 ár á leið frá Langjökli í gegnum jarðlögin og inn í Þingvallavatn.

Fjallið Skjaldbreiður

Jónas Hallgrímsson, náttúrufræðingur og skáld, ferðaðist um Ísland sumarið 1841. Á ferð sinni um Þingvallasvæðið villtist hann frá ferðafélögum sínum og orti kvæðið Fjallið Skjaldbreiður sem birtist fyrst í 8. árgangi Fjölnis árið 1845. Í ljóðinu bregður skáldið upp skemmtilegri mynd af sögu svæðisins, tilurð Skjaldbreiðar og þátt þess í myndun Þingvallavatns:

Fanna skautar faldi háum,
fjallið, allra hæða val;
hrauna veitir bárum bláum
breiðan fram um heiðardal.
Löngu hefur Logi reiður
lokið steypu þessa við.
Ógna-skjöldur bungubreiður
ber með sóma rjettnefnið.

Ríð jeg háan Skjaldbreið skoða,
skín á tinda morgunsól,
glöðnum fágar röðul-roða
reiðar-slóðir, dal og hól.
Beint er í norður fjallið fríða,
fákur eykur hófa-skell,
sjer á leiti Lambahlíða
og litlu sunnar Hlöðufell.

Vel á götu ber mig Baldur,
breiðkar stirðnað eldasund.
Hvenær hefur heims um aldur
hraun það brunað fram um grund?
Engin þá um Ísafoldu
unað hafa lífi dýr;
engin leit þá maður moldu,
móðu steins er undir býr.

Titraði jökull, æstust eldar,
öskraði djúpt í rótum lands,
eins og væru ofan felldar
allar stjörnur himna ranns;
eins og ryki mý eða mugga,
margur gneisti um loptið fló;
dagur huldist dimmum skugga,
dunaði gjá og loga spjó

Belja rauðar blossa móður,
blágrár reykur yfir sveif,
undir hverfur runni, rjóður,
reyni-stóð í hárri kleif.
Blómin ei þá blöskrun þoldu,
blikna hvert í sínum reit,
höfði drepa hrygg við moldu –
himna drottinn einn það leit.

Vötnin öll, er áður fjellu
undan hárri fjalla þröng,
skelfast, dimmri hulin hellu,
hrekjast fram um undirgöng;
öll þau hverfa að einu lóni,
elda þar sem flóði sleit.
Djúpið mæta, mest á Fróni,
myndast á í breiðri sveit.

Kyrrt er hrauns á breiðum boga,
blundar land í þráðri ró;
glaðir nætur glampar loga,
geislum sá um hæð og mó.
Brestur þá og yst með öllu
í undirhvelfing hraunið sökk;
dunar langt um himinhöllu,
hylur djúpið móða dökk.

Svo er treyst með ógn og afli
alþjóð minni helgað bjarg;
Breiður þakinn bláum skafli
bundinn treður foldar-varg.
Grasið þróast grænt í næði
glóðir þar sem runnu fyr;
styður völlinn bjrta bæði
berg og djúp – hann stendur kyr.

Hver vann hjer svo að með orku?
Aldrei neinn svo vígi hlóð!
Búinn er úr bála-storku
bergkastali frjálsri þjóð.
Drottins hönd þeim vörnum veldur;
vittu barn! sú hönd er sterk;
gat ei nema guð og eldur
gjört svo dýrðlegt furðuverk.

Hamragirðing há við austur
Hrafna rýs úr breiðri gjá;
varna-meiri veggur traustur
vestrið slítur bergi frá.
Glöggt jeg skil, hví Geitskór vildi
geyma svo hið dýra þing.
Enn þá stendur góð í gildi
gjáin kennd við almenning.

Heiðabúar! glöðum gesti
greiðið fór um eyðifjöll.
Einn jeg treð með hundi og hesti
hraun – og týnd er lestin öll.
Mjög þarf nú að mörgu að hyggja,
mikið er um dýrðir hjer!
Enda skal jeg úti liggja,
engin vættur grandar mjer.