• Eyjafjallajökull, eldgos, gjóska
    Sprengigos í Eyjafjallajökli dreifir gjósku. Mynd: Sævar Helgi Bragason

Gjóska

(e. tephra)

Gjóska (tephra) er samheiti á þeim föstu efnum sem berast í lofti frá eldstöð í eldgosi: ösku, vikri og gjalli eða bombum

Kornastærð

Gjóskan skiptist eftir kornastærð í[2]:

  • Aska – minni en 4 mm í þvermál

  • Vikur – milli 4-32 mm í þvermál

  • Gjall – stærri en 32 mm í þvermál, frauðkennt

Það hve langt frá eldstöð gjóska ferðist veltur á hæð gosmakkar og þ.a.l. kraftinum í gosinu, vindátt og vindhraða. Fínasta og léttasta gjóskan, askan, berst auðveldlega með vindi langar vegalengdir, jafnvel umhverfis jörðina. Stærsta gjóskan fellur venjulega skammt frá eldstöðinni.

Í kröftugum sprengigosum getur gjóska borist hátt upp í lofthjúpinn. Þar getur hún endurvarpað sólarljósið og í sumum tilvikum valdið kólnun í nokkur misseri.

Orðsifjar

Orðið gjóska var smíðað af Vilmundi Jónssyni, fyrrverandi landlækni, sem þýðing á alþjóðaheitinu tephra. Er orðið dregið af orðunum gjósa og aska. Orðið birtist fyrst í greininni Síðustu þættir Eyjaelda eftir Sigurð Þórarinssonar árið 1969. Áður var orð Guðmundar Kjartanssonar gosmöl notað yfir það loftborin gosefni[].

Gjóskulagafræði

Gjóska sem fellur til jarðar myndar lög í jarðveginum sem jarðfræðingar geta notað til að læra um eldri gos. Fornleifafræðingar geta á sama hátt notað gjóskulög til aldursákvarðana.

Á Íslandi tímasetja fornleifafræðingar landnám eftir landnámslaginu svonefnda, sem talið er eiga uppruna sinn í gosi á Torfajökulseldstöðinni frá árinu 871. Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur er upphafsmaður gjóskulagafræðinnar.

Heimildir

  1. Sigurður Þórarinsson. 1969. Síðustu þættir Eyjaelda. Náttúrufræðingurinn, 38. árgangur, 3-4. hefti. bls. 113-212. Reykjavík.

  2. Francis, Peter og Oppenheimer, Clive. 2004. Volcanoes Second Edition. Oxford University Press, Oxford.

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2010). Gjóska. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/solkerfid/jordin/eldgos-og-eldfjoll/gjoska (sótt: DAGSETNING).