Konan sem varð fyrir loftsteini

Loftsteinninn sem féll í Sylacauga árið 1954

  • Sylacauga, loftsteinn, Ann Hodges
    Loftsteinninn sem lenti á Ann Hodges árið 1954. Mynd: Beverly Crider

1. Sagan

Þann 30. nóvember árið 1954, klukkan 14:46 að staðartíma (18:46 að íslenskum tíma), sást óhemju skær vígahnöttur á himninum yfir Sylacauga í Alabama. Honum fylgdu miklar drunur og sprengingar og skildi hann eftir sig mikið ský á himni.

Rúmlega þrítug kona að nafni Ann Hodges hafði lagt sig á sófanum í stofunni heima hjá sér, þegar hún vaknaði upp við mikinn hávaða og sársauka.

Ann Hodges, loftsteinn, loftsteinar
Ann Hodges með marblett eftir 4 kg loftstein sem féll á hana. Myndin birtist í Life tímaritinu 13. desember árið 1954

Í fyrstu hélt hún að ofn í húsinu hefði sprungið en þegar hún leit í kringum sig sá hún gat í loftinu, skemmdir á útvarpsskáp og svartan stein aðeins stærri en appelsína á gólfinu. Ann varð ekki meint af en var mikið bólgin og fékk ljótan marblett.

Ann kallaði til lögreglu og í fylgd hennar kom bæjarstjórinn í Sylacauga. Þeir sýndu jarðfræðingi sem staddur var í nágrenninu steininn og taldi hann að um loftstein væri að ræða.

Margir voru þó ekki vissir. Vegna skýsins á himninum töldu flestir að flugvél hefði brotlent — aðrir grunuðu Sovétmenn.

Vænisýkin sem fylgdi Kaldastríðinu var slík að lögreglustjórinn lagði hald á svarta steininn og afhenti hann flughernum sem staðfesti að væri loftsteinn. Steinninn var svo sendur til Smithsonian stofnunarinnar til varðveislu.

Áhugi fólks á atburðinum var mikill. Almenningur og fjölmiðlar flykktust að heimili Hodges og varð henni svo mikið um athyglina, að læknirinn ákvað að flytja hana í skjól á sjúkrahús.

Ann vildi fá loftsteininn til baka en Smithsonian stofnunin var ekki á sama máli. Hún taldi steininn tilheyra sér og tók almenningur undir það. „Ég held að Guð hafi ætlað mér steininn. Hann féll nú einu sinni á mig!“ sagði hún. Það var ekki fyrr en þingmaður Alabama skarst í leikinn að steinninn rataði aftur til Ann.

En málið var ekki einfalt.

Ann Hodges, loftsteinn, loftsteinar
Ann Hodges með lögreglumönnum undir gatinu í loftinu. Myndin birtist í Life tímaritinu 13. deember árið 1954

Hodges hjónin leigðu íbúðina sem þau bjuggu í af konu að nafni Birdie Guy. Guy réði sér lögmál og kærði hjónin. Steinninn hafði fallið á hennar eign og hún krafðist þess að eiga hann. Guy vildi selja steininn til að greiða fyrir viðgerð á húsinu.

Lögin voru hennar megin en almenningsálitið ekki. Að lokum náðist sátt í málinu gegn greiðslu og endaði steinninn í eigu Ann. Hodges hjónin töldu sig geta selt hann fyrir háar fjárhæðir og höfnuðu ýmsum tilboðum sem þóttu of lág.

Tveimur árum síðar höfðu engin nægilega há kauptilboð borist í steininn. Ann ákvað þá að gefa Náttúruminjasafni Alabama steininn og þar er hann enn til sýnis.

Saga Ann birtist í ótal fjölmiðlun en hún gat lítið gert sér mat úr því. Líkamleg meiðsl Ann gréru fljótt en álagið sem fylgdi athyglinni tók sinn toll. Hún fékk taugaáfall og skildi við eiginmann sinn árið 1964. Bæði kenndu afleiðingum loftsteinahrapsins um.

Heilsu hennar fór hrakandi og eftir nokkur ár sem öryrki lést hún úr nýrnabilun árið 1972 á hjúkrunarheimili i Sylacauga.

Julius McKinney, bóndi sem bjó skammt frá Hodges hjónunum, var sennilega sá eini sem græddi á hrapinu. Hann fann annað brot úr steininum á vegi í nágrenninu og seldi það fyrir nægilega mikið fé til að kaupa lítinn bóndabæ og notaðan bíl.

Saga Ann Hodges er einstök. Hún er eina manneskjan í sögunni sem staðfest er að hefur orðið fyrir loftsteinahrapi.

2. Steinninn

Sylacauga loftsteinninn tvístraðist í um 30 km hæð yfir Jörðinni. Að minnsta kosti þrjú brot voru rúmar tvær mínútur að falla alla leið til Jarðar. Steinninn stefndi frá sólinni og úr stjörnumerkinu Naðurvalda.

Útreikningar á stefnu steinsins benda til þess að hann hafi hugsanlega verið brot úr smástirninu 1685 Toro sem er um 3 km breitt.

Loftsteinabrotin eru venjuleg kondrít, algengasta tegund loftsteina sem falla til Jarðar.

3. Tengt efni

Heimildir

  1. H. Povenmire. The Sylacauga, Alabama Meteorite: The Impact Locations, Atmosphere Trajectory, Strewn Field and Radiant. Abstracts of the Lunar and Planetary Science Conference, hefti 26, bls. 1133, (1995)

  2. Hodges Meteorite Strike (Sylacauga Aerolite). John C. Hall. Encyclopedia of Alabama (sótt: 26.06.13)

  3. The True Story of History's Only Known Meteorite Victim: Ann Hodges was hit by a meteorite in her Alabama home in 1954. Justin Nobel. National Geographic Daily News (sótt: 26.06.13)

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2013). Konan sem varð fyrir loftsteini. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornufraedi.is/solkerfid-large/loftsteinar/konan-sem-vard-fyrir-loftsteini (sótt: DAGSETNING).