OGLE

OGLE

Optical Gravitational Lensing Experiment

  • Varsjársjónaukinn, OGLE, Las Campanas
    Varsjársjónaukinn á Las Campanas í Chile

Rannsóknir eru gerðar með hinum 1,3 metra Varsjársjónauka í Las Campanas stjörnustöðinni i Chile. Á hverri nóttu er sjónaukanum beint á um 100 milljón stjörnur nálægt miðju Vetrarbrautarinnar í leit að örlinsuhrifum. Ár hvert greinir OGLE um 500 örlinsuatburði en sjaldgæft er að reikistjörnur finnist.

Hingað til (janúar 2011) hefur OGLE verkefnið fundið fjórtán fjarreikistjörnur. Átta þeirra fundust með þvergönguaðferðinni en sex út frá örlinsuhrifum.

Fyrsta örlinsureikistjarnan fannst í júlí 2003. Linsulindin var G stjarna á meginröð í um 29 þúsund ljósára fjarlægð (8,8 kílóparsek) í Bogmanninum. Linsustjarnan var appelsínugulur K dvergur í um 19 þúsund ljósára fjarlægð (5,8 kílóparsek) og á braut um hana gasrisinn OGLE-2003-BLG-235/MOA-2003-BLG-53. Talið er að gasrisinn sé um 2,6 Júpítersmassar í um 4,3 stjarnfræðieininga fjarlægð frá móðurstjörnunni.

Í janúar 2006 fannst reikistjarnan OGLE-2005-BLG-390Lb með örlinsuaðferðinni. Reikistjarnan er í um 21.500 ljósára fjarlægð í Sporðdrekanum, nærri miðju Vetrarbrautarinnar. Móðurstjarnan er rauður M4 dvergur og reikistjarnan í milli tveggja til fjögurra stjarnfræðieininga fjarlægð frá stjörnunni, nokkurn veginn í smástirnabeltinu milli Mars og Júpíters væri hún í sólkerfinu okkar. Miðskekkja brautarinnar er óþekkt og er þess vegna óvissa á raunverulegri fjarlægð reikistjörnunnar. Umferð- artíminn er talinn um tíu jarðár.

Talið er að reikistjarnan sé um fimm jarðmassar. Móðurstjarnan er fremur köld og reikistjarnan sjálf nokkuð langt frá henni. Hitastigið á yfirborðinu er því líklega aðeins 50 K (-220°C). Segja má að hér sé um að ræða kalda risajörð.