SuperWASP

SuperWASP

  • SuperWASP, þverganga
    SuperWASP leitar að fjarreikistjörnum með þvergönguaðferðinni

Til þess eru notaðar tvær stjörnustöðvar, SuperWASP norður á La Palma á Kanaríeyjum og SuperWASP suður í Suður Afríku. Í hvorri stjörnustöð eru átta 200mm Canon f/1,8 linsur á hágæða 2000x2000 pixla CCD myndavélum. Með þessum búnaði geta stjörnufræðingar rannsakað mjög breitt svæði á hvelfingunni (500 fergráður, fimmfalt stærra en svæðið sem Keplerssjónaukinn fylgist með) og greint stjörnur niður í 15. birtustig.

Leitaraðferð

Himinninn er ljósmyndaður um það bil einu sinni á mínútu. Á hverri nóttu safnar verkefnið 100 gígabætum af gögnum. Birta hverrar stjörnu á myndunum er mæld með ljósmæli. Ef birtuminnkun einhverrar stjörnu er í samræmi við þvergöngu má leiða líkum að því að þar sé að finna reikistjörnu.

Uppgötvanir

Leit SuperWASP bar fyrst árangur í september 2006 þegar stjörnufræðingar tilkynntu um uppgötvun á WASP-1b og WASP-2b. Báðar reikistjörnurnar eru heitir gasrisar með mjög stuttan umferðartíma (2,5 dagur). Í október 2007 bættust þrjár reikistjörnur í hópinn, allt heitir gasrisar með innan við tveggja daga umferðartíma.

Hingað til (janúar 2011) hefur SuperWASP fundið yfir 30 fjarreikistjörnur með þvergönguaðferðinni.