Byrjendur í stjörnuskoðun

Ókeypis stjörnukort fyrir Ísland

stjörnukort
Stjörnukort mánaðarins

Í hverjum mánuði útbúum við stjörnukort fyrir Ísland sem er dreift ókeypis hér á Stjörnufræðivefnum. Með því er auðveldara að átta sig á helstu stjörnumerkjum og mynstrum á himninum, svo sem Karlsvagninum í Stórabirni, Kassíópeiu og Óríoni (sem sést í kringum áramót).

Einnig viljum við benda á tvö stjörnufræðiforrit sem hafa verið þýdd á íslensku: Stellarium og AstroViewer.

Stjörnuskoðun með sjónauka

Í stjörnusjónauka má sjá ótal fyrirbæri sem eru of fjarlæg til þess að sjást með berum augum. Sjónaukinn stækkar ekki aðeins fyrirbærin heldur safnar hann margfalt meira ljósi en augu okkar eru fær um. Við getum því séð gíga á tunglinu eða tungl Júpíters rétt eins og við værum í geimflaug á leið til annarra hnatta í sólkerfinu.

Hér á vefnum er grein með ýmsum heilræðum fyrir þá sem eru að byrja að nota stjörnusjónauka.

Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness

Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness er opið öllum sem hafa áhuga á stjörnuskoðun. Félagar eru í kringum 300 talsins og búa um allt land. Stjörnuskoðunarfélagið er með félagsfundi í hverjum mánuði á veturna og stendur fyrir ýmsum viðburðum í samstarfi við Stjörnufræðivefinn, til að mynda árlegri sólskoðun á Austurvelli á 17. júní eða Menningarnótt.

Hægt er að fá upplýsingar um félagið og skrá sig í það á vef Stjörnuskoðunarfélagsins.

Námskeið fyrir byrjendur í stjörnuskoðun

Á hverjum vetri bjóða Stjörnufræðivefurinn og Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness upp á námskeið í stjörnuskoðun fyrir byrjendur. Farið er í helstu fyrirbæri sem hægt er að skoða á himninum, ásamt því að þátttakendum er kennt á stjörnusjónauka. Yfir 200 manns hafa komið á námskeiðin frá því að þau hófust haustið 2007. Margir þeirra sem eru virkastir í Stjörnuskoðunarfélaginu hafa stigið sín fyrstu skref á byrjendanámskeiðunum. Stjörnufræðivefurinn og Stjörnuskoðunarfélagið hafa einnig boðið upp á námskeið fyrir krakka og kennara.

Vanalega er haldið eitt byrjendanámskeið á haustin og eitt á vorin. Dagsetningar næstu námskeiða birtast inn á vefsíðu stjörnuskoðunarnámskeiðanna. Áhugasamir geta einnig sett netfang sitt á tölvupóstlistann neðst á síðunni og fá þá tilkynningar um námskeið og aðra viðburði á vegum Stjörnufræðivefsins og Stjörnuskoðunarfélagsins.