Glóðaraugað

Messier 64: Þyrilþoka í Bereníkuhaddi

  • Messier 64, Glóðaraugað, þyrilþoka, Bereníkuhaddur
    Þyrilþokan Glóðaraugað (Messier 64) í Bereníkuhaddi, Mynd: NASA/ESA/Hubble Heritage Team (STScI/AURA)
Helstu upplýsingar
Tegund: Þyrilþoka
 Gerð: (R)SA(rs)ab
Stjörnulengd:
12klst 56mín 43,7s
Stjörnubreidd:
+21° 40′ 58"
Fjarlægð:
17 milljón ljósár
Sjónstefnuhraði:
408 ±  km/s
Sýndarbirtustig:
+9,3
Stjörnumerki: Bereníkuhaddur
Önnur skráarnöfn:
NGC 4826

Enski stjörnufræðingurinn Edward Pigott uppgötvaði þokuna 23. mars árið 1779, aðeins tólf dögum á undan Þjóðverjanum Jóhann Elert Bode sem fann hana 4. apríl 1779. Tæplega ári síðar, þann 1. mars 1780, fann Frakkinn Charles Messier þokuna en honum var ekki kunnugt um uppgötvun Pigotts og Bodes. Uppgötvun Pigotts var svo til gleymd og grafin þar til hún kom upp á yfirborðið í apríl 2002.

Árin 1785 og 1789 skoðaði enski stjörnufræðingurinn William Herschel þokuna og uppgötvaði þá dökka rykið sem setur mikinn svip á þokuna. Herschel kallaði þokuna þá glóðaraugað.

Fjarlægðin til Glóðaraugans er nokkuð á reiki en líklega um 17 milljón ljósár. Hún er í kringum 50.000 ljósár í þvermál eða helmingi minni en vetrarbrautin okkar.

Við fyrstu sýn virðist Glóðaraugað dæmigerð þyrilþoka en rannsóknir hafa sýnt að gasið og rykið í ytri svæðum hennar snýst í öfuga átt miðað við gasið og stjörnurnar nær kjarnanum. Innra svæðið teygir sig um það bil 3.000 ljósár út frá kjarnanum en ytra svæðið önnur 40.000 ljósár. Þetta hefur í för með sér að stjörnur myndast einkum þar sem svæðin skerast, þar sem gasið mætist úr sitthvorri áttinni og þjappast saman.

Þetta sést vel á mynd Hubble geimsjónauka NASA og ESA af vetrarbrautinni. Ungar, heitar, bláar stjörnur hafa myndast fremur nýlega meðfram bleikum vetnisskýjum sem glóa fyrir tilverknað útfjólublás ljóss frá nýju stjörnunum.

Stjörnufræðingar álíta sem svo að gasið hafi byrjað að snúast í gagnstæðar áttir eftir að Glóðaraugað gleypti fylgivetrarbraut sína fyrir meira en einum milljarði ára. Þessi litla vetrarbraut er nú nánast alveg horfin en merki um áreksturinn sjást í bakhreyfingu gassins við ytri brún Glóðaraugans.

Glóðaraugað myndar lítinn hóp ásamt lítilli óreglulegri vetrarbraut, NGC 8024. Engar sprengistjörnur hafa sést í Glóðarauganu hingað til.

Á himninum

stjörnukort, stjörnumerki, Bereníkuhaddur
Kort sem sýnir staðsetningu Glóðaraugans (M64) í stjörnumerkinu Bereníkuhaddi. Kort: IAU/S&T og Stjörnufræðivefurinn

Ekki er svo ýkja auðvelt að finna Glóðaraugað og því nauðsynlegt að styðjast við stjörnukort af Bereníkuhaddi. Stjörnur merkisins eru fremur daufar en gott er að byrja á að finna stjörnuna Alfa Comae, hoppa síðan um það bil 4 gráður norð-norðvestur að stjörnunni 35 Comae — Glóðaraugað er rétt tæpa gráðu í norðaustur frá henni.

Unnt er að koma auga á Glóðaraugað með góðum handsjónauka við bestu aðstæður. Hún nýtur sín þó best í stjörnusjónaukum við meðalstækkun. Með stjörnusjónauka sést að birta hennar og áferð er fremur ójöfn. Hún er nokkuð sporöskjulaga og með bjartan og stóran kjarna. Í suð-suðvestur frá kjarnanum er helsta einkenni Glóðaraugans, rykið, sem sést í fjögurra tommu sjónaukum og stærri. Höfundur þessarar greinar hefur reyndar líka greint rykið í gegnum mjög vandaðan 80mm linsusjónauka en það er nokkuð krefjandi.

Tengt efni

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Glóðaraugað. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/glodaraugad (sótt: DAGSETNING).