Messier 104

Mexíkóahatturinn í Meyjunni

  • Messier 104, þyrilþoka, Sombrero Galaxy, Mexíkóahatturinn, Meyjan
    Þyrilþokan Messier 104 eða Mexíkóahatturinn í Meyjunni. Mynd: ESO/P. Barthel
Helstu upplýsingar
Tegund: Þyrilþoka
 Gerð: SAB(rs)cd
Stjörnulengd:
14klst 03mín 12,6s
Stjörnubreidd:
+54° 20′ 57"
Fjarlægð:
29 milljónir ljósára
Sjónstefnuhraði:
1.024 ± 5 km/s
Sýndarbirtustig:
+7,86
Stjörnumerki: Meyjan
Önnur skráarnöfn:
NGC 4594

Franski stjörnufræðingurinn Pierre Méchain uppgötvaði þokuna 11. maí árið 1781. Sama dag skráði landi hans og vinur Charles Messier þokuna í sína eigin útgáfu af skrá sinni og lýsti sem mjög daufri þoku. Messier 104 var því fyrsta fyrirbærið sem var ekki í upprunalegri útgáfu Messierskrárinnar.

Fáir vissu af þessari forvitnilegu þoku fyrr en William Herschel uppgötvaði hana 9. maí 1784 og gaf henni númerið H I.43. Herschel vissi sjálfur ekki af uppgötvun Méchains. Herschel tók líka fyrstur eftir þykku rykslæðunni sem einkennir vetrarbrautina og er ástæða þess að hún er nefnd Mexíkóahatturinn.

Það var ekki fyrr en árið 1921 að þokan rataði opinberlega í skrá Messiers. Þá fann franski stjörnufræðingurinn Camille Flammarion handrit Messiers sjálfs og komst að því að stöðuhnit M104 á himninum kom heim og saman við fyrirbærið H I.43 í skrá Herschels og fyrirbæri 4594 í NGC skránni.

Árið 1912 gerði Vesto M. Slipher, stjörnufræðingur við Lowell stjörnustöðina í Bandaríkjunum, litrófsmælingar á M107. Slipher komst að því að rauðvik hennar var mjög hátt og samsvaraði því að hún fjarlægðist okkur á rúmlega 1.000 km hraða á klukkustund. Honum tókst líka að mæla snúningshraða hennar.

Messier 104 er þyrilþoka í um 29 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er nokkurn veginn á rönd og einkennist af björtum kjarna, gríðarmikilli miðbungu sem inniheldur aðallega gamlar stjörnur og þykkri rykslæður sem virðist kljúfa vetrarbrautina í tvennt. Rykslæðan er hringlaga og umvefur bunguna og þar fer myndun stjarna í vetrarbrautinni að mestu fram.

Í kjarna M104 er risasvarthol, líklega um einn milljarður sólmassa. Frá kjarnanum mælist öflug samhraðlageislun sem myndast þegar hlaðnar agnir fara um sterkt segulsvið og nálgast ljóshraða. Frá honum berst því útvarps- og röntgengeislun sem bendir til þess að kjarninn sé virkur.

Myndir Hubble geimsjónaukans sýna að hartnær 2.000 kúluþyrpingar tilheyra Messier 104, tífalt fleiri en vetrarbrautin okkar hefur.

Á himninum

Messier 104 er um 11,5 gráðu vestur af stjörnunni Spíka í Meyjunni og 5,5 gráður norðaustur af stjörnunni Eta í Hrafninum. Gott er að nota stjörnukort af Meyjunni til að auðvelda sér leitina. Vetrarbrautin kemst aldrei mjög hátt upp á himininn yfir Íslandi en best er að skoða hana á vorin.

Vetrarbrautin er sýnileg með handsjónauka en stjörnusjónauka þarf til að sjá í henni smáatriði. Höfundur þessarar greinar hefur séð miðbunguna vel í gegnum 6 tommu spegilsjónauka við meðalstækkun og rykslæðuna í gegnum 9,25 tommu sjónauka við mikla stækkun. Höfundur hefur einnig skoðað hana í gegnum 14 tommu sjónauka og þar var hún virkilega glæsileg að sjá.

Tengt efni

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 104. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-104 (sótt: DAGSETNING).