Messier 107

Kúluþyrping í Naðurvalda

  • Kúluþyrpingin Messier 107 (M107) eða NGC 6171. Mynd: ESO
Helstu upplýsingar
Tegund: Kúluþyrping
Stjörnulengd:
16klst 32mín 31,91s
Stjörnubreidd:
-13° 03′ 13,1"
Fjarlægð:
20.900 ljósár
Sýndarbirtustig:
+8,85
Stjörnumerki: Naðurvaldi
Önnur skráarnöfn:
NGC 6171

Frakkinn Pierre Méchain uppgötvaði Messier 107 í apríl árið 1782 og bætti henni við lista yfir sjö önnur fyrirbæri sem voru ekki í lokaútgáfu Messiersskrárinnar sem hafði verið gefin árið áður. Þann 12. maí árið 1793 fann William Herschel þyrpinguna aftur og tókst þá fyrstum manna að greina sundur stakar stjörnur í þyrpingunni. Það var svo ekki fyrr en árið 1947 sem þyrpingin rataði loks í Messiersskrána og varð 107. fyrirbærið í skránni og nýlegasta stjörnuþyrpingin sem bætt var í hana.

Messier 107 er gott dæmi um kúluþyrpingu sem dofnað hefur af völdum ryks í vetrarbrautinni milli okkar og hennar. Frá okkar sjónarhorni á jörðinni er sem þyrpingin sitji ofan á rykskýjum í vetrarbrautinni okkar yfir Sporðdrekanum.

Á himninum

Messier 107 sést ekki með berum augum en sýndarbirtustig hennar er um það bil átta, svo hún sést leikandi með handsjónauka eða litlum stjörnusjónauka. Kúluþyrpingin er 13 bogamínútur í þvermál sem samsvarar 80 ljósárum miðað við fjarlægð hennar.

Fremur auðvelt er að staðsetja Messier 107 á næturhimninum, að því gefnu að Naðurvaldi sé yfir sjóndeildarhringnum. Frá Íslandi séð er Messier 107 fremur lágt á lofti svo tímasetningin skiptir miklu máli. Best er að sjá þokuna snemma kvölds á haustin og seint á kvöldin á vorin. Þyrpingin er þrjár gráður suð-suðvestur af stjörnunni Zeta Ophiuchi eins og sjá má á korti af Naðurvalda.

M107, Messier 107, Kúluþyrping, Naðurvaldi
Kúluþyrpingin Messier 107 á mynd Hubblessjónaukans. Mynd: NASA/ESA-Hubble

Tengt efni

Heimildir

  1. Svermur gamalla stjarna. ESO (eso1048)

  2. Aldraður stjörnuskari - Mynd vikunnar á Stjörnufræðivefnum

  3. Messier 107, SEDS Messier pages

  4. en.wikipedia.org/wiki/Messier_107

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 107. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-107 (sótt: DAGSETNING).