Messier 110

Fylgivetrarbraut Andrómeduþokunnar M31

  • messier-31-32-110
    Messier 31, Messier 32 og Messier 110. Mynd: ESA/Hubble & Digitized Sky Survey 2. Þakkir: Davide De Martin (ESA/Hubble)
Helstu upplýsingar
Tegund: Dvergsporvöluþoka
 Gerð: E5 Peculiar
Stjörnulengd:
00klst 40mín 22,1s
Stjörnubreidd:
+41° 41′ 07"
Fjarlægð:
2.7 milljón ljósár
Rauðvik:
z = -0,000804
Sjónstefnuhraði:
-241 ± 3 km/s
Sýndarbirtustig:
+8,92
Stjörnumerki: Andrómeda
Önnur skráarnöfn:
NGC 20

Athyglisvert er að þótt Charles Messier hafi uppgötvað þokuna 10. ágúst 1773 og rissað hana á mynd af Andrómeduþokunni, rataði hún ekki í skrá hans af einhverjum ástæðum. Rétt rúmum tíu árum síðar, 27. ágúst 1783, fann Caroline Herschel þokuna og skráði bróðir hennar hana 5. október 1784. Það var ekki fyrr en árið 1966 sem Kenneth Glyn Jones bætti henni við skrá Messiers.

Messier 110 er í um 2,7 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er næstbjartasta fylgivetrarbraut Andrómeduþokunnar á eftir Messier 32. M110 er aðeins 12.000 ljósár í þvermál en massi hennar er 3,5 til 15 milljarðar sólmassar.

Nálægðin við Andrómeduþokuna hefur sett sinn svip á M110. Þokan er augljóslega örlítið bjöguð vegna flóðkrafta frá Andrómedu. Í henni er auk þess merki um ryk og nýlega myndun stjarna sem er óvenjulegt í tilviki dvergsporvala. Í vetrarbrautinni eru þess vegna margar ungar og heitar bláar O og B stjörnur innan um eldri og rauðleitari stjörnur sem jafnan einkenna sporvöluþokur.

Engin merki eru um risasvarthol í miðju M110 ólíkt M32. Þrátt fyrir smæðina sveima átta kúluþyrpingar umhverfis hana. Sú bjartasta nefnist G73 og er birtustig hennar +15. Hún er því innan seilingar stórra áhugamannasjónauka (14 tommur og stærri).

Á himninum

Stjörnumerkið Andrómeda er alla jafna hátt á himninum yfir Íslandi. M31 og fylgivetrarbrautir hennar sjást því leikandi frá Íslandi. Til að finna þríeykið er gott að notast við stjörnukort af Andrómedu.

Birtustig M110 er +8 svo hægt er að greina hana með góðum vilja í handsjónauka þótt heppilegra sé að notast við stjörnusjónauka. Þá sést augljóslega sporöskjulögunin og að kjarninn er þéttur og dofnar til jaðranna.

Tengt efni

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 110. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-110 (sótt: DAGSETNING).