Messier 2

Kúluþyrping í Vatnsberanum

  • Messier 2, kúluþyrping, Vatnsberinn
    Kúluþyrpingin Messier 2 í Vatnsberanum. Mynd: NASA/ESA
Helstu upplýsingar
Tegund: Kúluþyrping
Stjörnulengd:
21klst 33mín 27s
Stjörnubreidd:
-00° 49′ 24"
Fjarlægð:
37.500 ljósár
Sýndarbirtustig:
+6,5
Stjörnumerki: Vatnsberinn
Önnur skráarnöfn:
NGC 7089

Jean-Dominique Maraldi uppgötvaði þyrpinguna þann 11. september 1746. Charles Messier vissi ekki af uppgötvun Maraldis og fann þyrpinguna sjálfur nákvæmlega 14 árum síðar (11. september 1760). Hann lýsti henni í skrá sinni sem „þoku án stjarna“ en það var stjörnufræðingurinn William Herschel sem fyrstur greindi stjörnur í þyrpingunni Skaftáreldaárið 1783.

Messier 2 er í um 37.500 ljósára fjarlægð frá sólkerfinu sem er hér um bil 50% lengri vegalengd en að miðju Vetrarbrautarinnar. Í þyrpingunni eru um 150 þúsund stjörnur. Hún er um 175 ljósár í þvermál og því með stærstu kúluþyrpingum sem þekkjast. Hún er auk þess þétt og sporöskjulaga. Þyrpingin er um 13 milljarða ára.

Á himninum

Messier 2 sést sem daufur þokublettur um 5° norðan við stjörnuna Sadalsund (Beta) í Vatnsberanum (sjá stjörnukort af Vatnsberanum). Sýndarbirtustig hennar er +6,5 svo hún er á mörkum þess að sjást með berum augum við góðar aðstæður. Björtustu rauðu risarnir í kúluþyrpingunni eru með birtustig í kringum +13.

Þyrpingin er það björt að hún sést auðveldlega bæði í handsjónauka og stjörnusjónauka. Hægt er að sjá einstaka stjörnur í meðalstórum sjónauka en fjarlægð hennar gerir það að verkum að stóran sjónauka þarf til að greina stjörnurnar vel í sundur.

Tengt efni

Heimildir

  1. Messier 2, SEDS Messier pages

  2. en.wikipedia.org/wiki/Messier_2

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sverrir Guðmundsson og Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 2. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-2 (sótt: DAGSETNING).