Messier 24

Stjörnuský í Bogmanninum

  • Messier 24, stjörnuský, bogmannsskýið
    Bogmannskýið Messier 24 í Bogmanninum. Mynd: NASA/ESA
Helstu upplýsingar
Tegund: Lausþyrping
Stjörnulengd:
18klst 17mín
Stjörnubreidd:
-18° 29"
Fjarlægð:
10.000 ljósár
Sýndarbirtustig:
+4,6
Stjörnumerki: Bogmaðurinn
Önnur skráarnöfn:
Bogmannsskýið

Franski stjörnufræðingurinn Charles Messier uppgötvaði skýið og skrásetti þann 20. júní 1764. Messier lýsti svæðinu sem stórri þoku úr mörgum misbjörtum stjörnum.

Messier 24 er ekki „raunverulegt“ djúpfyrirbæri heldur risavaxið stjörnuský í Bogmanns- eða Bogmanns-Kjalararmi Vetrarbrautarinnar. Þótt skýið líkist þyrpingu dreifast stjörnurnar um svæði sem er milli 10.000 og 16.000 ljósár í burtu frá okkur. Fyrir tilviljun er „gat“ í miðgeimsrykinu svo það er sem við horfum í gegnum glugga á stjörnur í einum þyrilarmi Vetrarbrautarinnar. Þessi gluggi hefur mikla þýðingu því hann gerir okkur kleift að rannsaka uppbyggingu Vetrarbrautarinnar og svæði sem ella væru okkur hulin.

Bandaríski stjörnufræðingurinn Edward Emerson Barnard skráði tvær áberandi skuggaþokur í norðurhluta Messier 24 stjörnuskýsins, númer 92 og 93.

Á himninum

Messier 24 sést leikandi með berum augum við bestu aðstæður. Skýið sést frá Íslandi, naumlega þó því það rísa aldrei hátt yfir sjóndeildarhringinn. Best er að skoða það með handsjónauka á haustin, í lok ágúst og upphafi september. Sjá stjörnukort af Bogmanninum.

Tengt efni

Heimildir

  1. Messier 24, SEDS Messier pages

  2. en.wikipedia.org/wiki/Sagittarius_Star_Cloud

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 24. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-24 (sótt: DAGSETNING).