Messier 3

Kúluþyrping í Veiðihundunum

  • Messier 3, kúluþyrping, Veiðihundarnir
    Kúluþyrpingin Messier 3 í Veiðihundunum. Mynd: Wikimedia Commons
Helstu upplýsingar
Tegund: Kúluþyrping
Stjörnulengd:
13klst 42mín 11,23s
Stjörnubreidd:
28° 22′ 31,6"
Fjarlægð:
33.900 ljósár
Sýndarbirtustig:
+6,2
Stjörnumerki: Veiðihundarnir
Önnur skráarnöfn:
NGC 5272

Franski stjörnufræðingurinn Charles Messier uppgötvaði þyrpinguna þann 3. maí árið 1764. Uppgötvunin markaði tímamót því líklegt er að hún hafi orðið til þess að Messier hóf að skrásetja þokukennd fyrirbæri á himninum sem líktust halastjörnum. Sama ár tók hann saman fyrstu 40 fyrirbæri skráar sinnar. Messier tókst ekki að greina í sundur stjörnur í þyrpingunni en það gerði hins vegar William Herschel fyrstur manna tuttugu árum síðar.

Messier 3 er í um 33.900 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er rúmlega 31.000 ljósár yfir fleti Vetrarbrautarinnar og næstum 39.000 ljósár frá miðju hennar. Í henni er líklega hátt í hálf milljón stjarna á svæði sem ef til vill er um 200 ljósár á breidd. Í þyrpingunni eru þekktar rúmlega 270 breytistjörnur, þar á meðal yfir 130 RR Hörpustjörnur sem hjálpa okkur að reikna út fjarlægðina til hennar.

Á himninum

Auðvelt er að finna Messier 3 á stjörnuhimninum með hjálp stjörnukorts af Veiðihundunum. TIl að finna þyrpinguna hjálpar að draga ímyndaða línu frá Arktúrusi í Hjarðmanninum til Cor Caroli í Veiðihundunum. Hálfa vegu milli þeirra er Messier 3.

Sýndarbirtustig Messier 3 er +6,2 svo hún er á mörkum þess að sjást með berum augum við bestu aðstæður en sést auðveldlega með hjálp handsjónauka eða stjörnusjónauka. Í gegnum handsjónauka er þyrpingin þokumóða, þétt í miðjunni en daufari til jaðranna.

Í gegnum stjörnusjónauka er hún með fallegustu kúluþyrpingum norðurhiminsins ásamt Messier 5, Messier 13 og Messier 15 (að mati höfundar). Með fjögurra tommu sjónauka sést þéttur kjarni og kornótt ljóstýra sem dofnar út til jaðranna og aðeins björtustu stjörnurnar sjást. Með átta tommu sjónauka sjást stjörnur í þyrpingunni inna að kjarna en hægt er að greina sundur stjörnur í kjarnanum með stærri sjónaukum.

Tengt efni

Heimildir

  1. Messier 3, SEDS Messier pages

  2. en.wikipedia.org/wiki/Messier_3

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 3. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-3 (sótt: DAGSETNING).