Messier 30

Messier 30

Kúluþyrping í Steingeitinni

  • Messier 30, kúluþyrping, Steingeitin
    Kúluþyrpingin Messier 30 í Steingeitinni
Helstu upplýsingar
Tegund: Kúluþyrping
Stjörnulengd:
21klst 40mín  22,03s
Stjörnubreidd:
-23° 10′ 44,6"
Fjarlægð:
29.400 ljósár
Sýndarbirtustig:
+7,7
Stjörnumerki: Steingeitin
Önnur skráarnöfn:
NGC 7099

Franski stjörnufræðingurinn Charles Messier uppgötvaði þyrpinguna og færði hana í skrá sína þann 3. ágúst 1764. Hann lýsti þyrpingunni sem „ávalri þoku án stjarna“ en stjörnufræðingurinn William Herschel greindi fyrstur í sundur stjörnur í þyrpingunni í kringum 1784.

Kúluþyrpingin Messier 30 er í um 29.400 þúsund ljósára fjarlægð frá sólu, sem er aðeins meira en fjarlægðin inn að miðju Vetrarbrautarinnar. Þyrpingin er um 93 ljósár í þvermál og hornstærðin er um 12 bogamínútur. Sýndarbirtustig hennar er +7,7 en björtustu rauðu risarnir í þyrpingunni eru með birtustig í kringum +12. Hún er talin í kringum 12,9 milljarða ára, inniheldur um 160.000 sólmassa og er geysiþétt.

Á himninum

Messier 30 sést á himninum um 3° austan við stjörnuna ζ (zeta) í Steingeitinni (sjá stjörnukort af Steingeitinni). Hún sést einungis með handsjónauka eða stjörnusjónauka. Auk þess kemst hún einungis rétt yfir sjóndeildarhringinn á Íslandi (mest 2,5° í Reykjavík) sem þýðir að hún sést ekki á Norðurlandi vegna deyfingar ljóssins á leið sinni í gegnum loftjúpinn.

M30 lendir yfirleitt aftast á lista yfir Messierfyrirbærin í svonefndu Messier-maraþoni þar sem kappsamir áhugamenn (í útlöndum) reyna að sjá öll fyrirbæri Messierskrárinnar á einni nóttu. Hún hefur því að ósekju slæmt orð á sér þar sem oft er orðið of bjart af degi til að skoða þyrpinguna.

Tengt efni

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sverrir Guðmundsson og Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 30. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-30 (sótt: DAGSETNING).