Messier 34

Lausþyrping í Perseifi

  • Messier 34, lausþyrping, Perseifur
    Lausþyrpingin Messier 34 í Perseifi. Mynd: REU program/NOAO/AURA/NSF
Helstu upplýsingar
Tegund: Lausþyrping
Stjörnulengd:
02klst 42,1mín
Stjörnubreidd:
+44° 46′
Fjarlægð:
1.500 ljósár
Sýndarbirtustig:
+5,5
Stjörnumerki: Perseifur
Önnur skráarnöfn:
NGC 1039

Ítalski stjörnufræðingurinn Giovanni Batista Hodierna uppgötvaði þyrpinguna fyrir árið 1654. Franski stjörnufræðingurinn Charles Messier vissi ekki af uppgötvun Hodierna og fann þyrpinguna sjálfur 25. ágúst 1764.

Messier 34 er í um 1.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni og er um 15 ljósár í þvermál. Aldur hennar er áætlaður út frá samanburði á litrófi stjarnanna í þyrpingunni og H-R línuritinu. Hún er talin 200-250 milljón ára. Færsla M34 um Vetrarbrautina er sambærileg við færslu annarra þyrpinga eins og Sjöstirnisins, NGC 2516, IC 2602, Melotte 20 og Stephenson 1. Þær gætu allar átt sameiginlegan uppruna.

Messier 34 telur um 400 stjörnur sem eru á bilinu 0,12 til 1 sólmassar. Að minnsta kosti 19 hvítir dvergar hafa fundist í henni. Þyrpingin mælist með 17% hærra hlutfall af járni á móti vetni samanborið við sólina.

Á himninum

Með hjálp stjörnukorts af Perseifi er auðvelt að finna Messier 34. Þyrpingin er rétt norðan við ímyndaða línu sem dregin er milli stjarnanna Algol í Perseifi og Almach í Andrómedu.

Þyrpingin sést naumlega með berum augum við bestu aðstæður en leikandi með handsjónauka. Best er að skoða þyrpinguna við litla stækkun í gegnum stjörnusjónauka. Með dæmigerðum áhugamannasjónauka sjást á bilinu 80 til 100 stjörnur í þyrpingunni. Birtustig björtustu stjörnunnar er +7,9.

Tengt efni

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 34. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-34 (sótt: DAGSETNING).