Messier 36

Lausþyrping í Ökumanninum

  • Messier 36, lausþyrping, Ökumaðurinn
    Lausþyrpingin Messier 37 í Ökumanninum. Mynd: NOAO/AURA/NSF
Helstu upplýsingar
Tegund: Lausþyrping
Stjörnulengd:
5klst 36mín
Stjörnubreidd:
+34° 08′
Fjarlægð:
4.100 ljósár
Sýndarbirtustig:
+6,3
Stjörnumerki: Ökumaðurinn
Önnur skráarnöfn:
NGC 1960

Ítalski stjörnufræðingurinn Giovanni Batista Hodierna uppgötvaði þyrpinguna fyrir árið 1654. Uppgötvun Hodiernas varð mönnum reyndar ekki ljós fyrr en árið 1984. Þann 2. september árið 1764 rataði hún í skrá franska stjörnufræðingsins Charles Messier yfir þokukennd fyrirbæri á stjörnuhimninum sem líktust halastjörnum.

Messier 36 er í um 4.100 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún inniheldur að minnsta kosti sextíu stjörnur á um það bil 14 ljósára breiðu svæði. Björtustu stjörnurnar eru í litrófsflokki B2 og er birtustig þeirra +9. Sú bjartasta er 360 sinnum bjartari en sólin. Sjá má af litrófslínum stjarnanna að margar snúast mjög hratt. Samskonar áhrif koma fram í litrófum B stjarnanna í Sjöstirninu en þyrpingarnar eru keimlíkar. Væri Messier 36 í sömu fjarlægð frá jörðinni og Sjöstirnið, litu þær ekki ósvipað út á himninum.

Messier 36 er fremur ung þyrping, aðeins um 25 milljón ára. Í henni eru engir rauðir risar, öfugt við nágrannana Messier 37 og Messier 38 sem eru álíka fjarlægar.

Á himninum

Messier 36 er alla jafn hátt á íslenska stjörnuhimninum. Þyrpingin sést með berum augum sem daufur þokublettur við bestu aðstæður en gott er að nota stjörnukort af Ökumanninum til að finna hana. Best er að skoða hana með lítilli stækkun í stjörnusjónauka.

Þyrpingin er kjörið viðfangsefni byrjenda í stjörnuskoðun og vitaskuld lengra kominna líka.

Tengt efni

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 36. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-36 (sótt: DAGSETNING).