Messier 44

Lausþyrpingin Býflugnabúið eða Jatan í Krabbanum

  • Messier 44, lausþyrping, Býflugnabúið, Jatan
    Lausþyrpingin Messier 44 eða Býflugnabúið í Krabbanum. Mynd: 2MASS
Helstu upplýsingar
Tegund: Lausþyrping
Stjörnulengd:
08klst 40,4mín 
Stjörnubreidd:
19° 41′
Fjarlægð:
580 ljósár
Sýndarbirtustig:
+3,7
Stjörnumerki: Krabbinn
Önnur skráarnöfn:
NGC 2632

Forn-Grikkir og Rómverjar sáu fyrir sér tvo asna, stjörnurnar Asellus Borealis (norður asninn) og Asellus Australis (suður asninn), sem átu úr jötu. Eratosþenes sagði þetta asnana sem guðirnir Díónýsos og Sílenus riðu á í orrustunni við Títanana. Títanarnir óttuðust hrín dýranna svo guðirnir höfðu sigur úr bítum. Í viðurkenningarskini voru asnarnir gerðir ódauðlegir á himninum.

Býflugnabúið er ein nálægasta lausþyrpingin við sólkerfið okkar. Hún sést vel með berum augum við þokkalegar aðstæður og minnir um margt á flugnasverm. Messier 44 er ein af sjö þokum sem Ptólmæos minnist á í riti sínu Almagest. Hann lýsir henni sem „þokukenndum massa í hjarta krabbans“.

Galíleó Galíleó var fyrstur til að skoða Býflugnabúið með sjónauka árið 1609 og sá 40 stjörnur í því. Charles Messier bætti þyrpingunni við skrá sína 4. mars 1769.

Stjarnmælingar evrópska gervitunglsins Hipparkosar benda til þess að þyrpingin sé í um 580 ljósára fjarlægð frá sólu. Litrófsmælingar á stjörnum í þyrpingunni benda til þess að aldur hennar sé um 600-700 milljónir ára. Hún mun því vera á svipuðum aldri og Regnstirnið í Nautinu. Þótt nú beri talsvert á milli þeirra á himinhvelfingunni stefna þær í sömu átt á ferðalagi sínu umhverfis Vetrarbrautina. Því hafa stjörnufræðingar leitt getum að því að þær eigi uppruna sinn í sama gasskýinu fyrir um 700 milljónum ára en erfitt gæti reynst að staðfesta þá tilgátu.

Líklegt er að Býflugnabúið telji um 1000 stjörnur og að heildarmassi þyrpingarinnar sé um 500-600 sólmassar. Flestar eru M-stjörnur (68%), 30% stjörnur sem líkjast sólinni í litrófsflokki F, G og K og um 2% í litrófsflokki A. Í þyrpingunni hefur líka fundist rúmur tugur hvítra dverga.

Á himninum

stjörnukort, stjörnumerki, Krabbinn
Kort af stjörnumerkinu Krabbanum sem sýnir staðsetningu Messier 44.

Sýndarbirtustig Messier 44 er +3,7 og því er auðvelt að koma auga á þyrpinguna í miðju Kabbamerkinu við þokkaleg stjörnuskoðunarskilyrði. Hægt er að finna Krabbann út frá Tvíburunum og Litlahundi sem eru honum á hægri hönd. Ljónið er vinstra megin Krabbans og myndar „speglað spurningamerki“ eða sigð og er stjarnan Regúlus neðst (sjá stjörnukort af Krabbanum).

Messier 44 er tilvalið jafnt fyrir byrjendur í stjörnuskoðun og þá sem eru lengra komnir. Þyrpinguna er gaman að skoða bæði í handsjónauka og stjörnusjónauka. Hún spannar nærri því eina og hálfa gráðu á himninum (þrisvar sinnum breiðara en tunglið!) og nýtur sín því best við sem minnsta stækkun (augngler með langa brennivídd, t.d. 25mm) í litlum stjörnusjónaukum.

Þyrpingin sést beest þegar Krabbamerkið er hátt á himni frá því seint í janúar og fram á vor.

Tengt efni

Heimildir

  1. Messier 44, SEDS Messier pages

  2. en.wikipedia.org/wiki/Beehive_Cluster

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sverrir Guðmundsson og Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 44. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-44 (sótt: DAGSETNING).