Messier 52

Lausþyrping í Kassíópeiu

  • Messier 52, lausþyrping, Kassíópeia, NGC 7635, ljómþoka
    Lausþyrpingin Messier 52 og ljómþokan NGC 7653 í Kassíópeiu. Mynd: Wikimedia Commons
Helstu upplýsingar
Tegund: Lausþyrping
Stjörnulengd:
23klst 24,2mín
Stjörnubreidd:
+61° 35′
Fjarlægð:
5.000 ljósár
Sýndarbirtustig:
+5,0
Stjörnumerki: Kassíópeia
Önnur skráarnöfn:
NGC 7654

Franski stjörnufræðingurinn Charles Messier uppgötvaði þyrpinguna 7. september árið 1774, þegar halastjarna komst nálægt henni það ár.

Vegna ryks í Vetrarbrautinni milli okkar og Messier 52 er fjarlægðin nokkuð á reiki en talin um 5.000 ljósár. Hún er um 19 ljósár í þvermál og líklega aðeins um 35 milljón ára gömul.

Í þyrpingunni eru í kringum 200 stjörnur. Björtustu stjörnurnar eru gulir risar í litrófsflokki F9 og G8. Birtustig þeirra er annars vegar +7,77 og hins vegar +8,22 og sjást því leikandi í gegnum stjörnusjónauka.

NGC 7635

Um það bil 35 bogamínútum suðvestur af M52 er Bóluþokan (Bubble Nebula) NGC 7635. Enski stjörnufræðingurinn William Herschel uppgötvaði þokuna árið 1787. Bólan verður til fyrir tilverknað sólvinds frá ungri, heitri og massamikilli (~ 10-40 sólmassa) stjörnu í miðjunni, SAO 20575 (BD+60 2522). Umhverfis þokuna er stórt miðgeimsský sem stjarnan í miðjunni örvar svo það lýsir. Bóluþokan er því ljómþoka sem talin er í um 11.000 ljósára fjarlægð.

Bóluþokan er mjög dauf en þó sýnileg í 8 til 10 tommu áhugamannasjónaukum við bestu aðstæður sem stór skel í kringum stjörnuna. Við hlið hennar stjarna af 7. birtustigi og glýjan frá henni dregur úr birtu þokunnar. Því er nauðsynlegt að nota hliðraða sjón til að koma auga á hana.

Bóluþokan er vinsælt viðfangsefni stjörnuljósmyndara.

Á himninum

Kassíópeia er hátt á íslenska stjörnuhimninum og sést Messier 52 því leikandi. Auðvelt er að finna hana með því að draga ímyndaða línu 6,5 gráður frá stjörnunni Alfa yfir Beta í Kassíópeiu að stjörnunni 4 Kassíópeia sem er af 5. birtustigi. M52 er hér um bil eina gráður suður og örlítið til vestur af þessari stjörnu. Best er að styðjast við stjörnukort af Kassíópeiu.

Stjörnuáhugafólk getur komið auga á þyrpinguna með góðum handsjónaukum eða leitarsjónaukum. Best er skoða hana með stjörnusjónauka við litla stækkun.

Tengt efni

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 52. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-52 (sótt: DAGSETNING).