Messier 53

Kúluþyrping í Bereníkuhaddi

  • Messier 53, kúluþyrping, Bereníkuhaddur
    Kúluþyrpingin Messier 53 í Bereníkuhaddi. Mynd: NASA/ESA/WikiSky
Helstu upplýsingar
Tegund: Lausþyrping
Stjörnulengd:
13klst 12mín 55,3s
Stjörnubreidd:
+18° 10′ 09"
Fjarlægð:
58.000 ljósár
Sýndarbirtustig:
+8,33
Stjörnumerki: Bereníkuhaddur
Önnur skráarnöfn:
NGC 5024

Þýski stjörnufræðingurinn Jóhann Elert Bode uppgötvaði þyrpinguna 3. febrúar árið 1775. Franski stjörnufræðingurinn Charles Messier fann hana tveimur árum síðar, þann 26. febrúar 1777. William Herschel var fyrstur til að greina sundur stjörnur í þyrpingunni og taldi hana líkjast Messier 10.

Messier 53 er með fjarlægari kúluþyrpingum í Messierskránni. Hún er í um 58.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni og 60.000 ljósár frá miðju Vetrarbrautarinnar. Hún er um það bil 200 ljósár í þvermál. Kjarninn er nokkuð þéttur en þó ekki mjög í samanburði við margar aðrar kúluþyrpingar. M53 er málmsnauð líkt og flestar kúluþyrpingar.

Á himninum

Messier 53 sést vel frá Íslandi enda kemst stjörnumerkið Bereníkuhaddur hátt á íslenka stjörnuhimininn. Mjög auðvelt er að finna þyrpinguna því hún er aðeins eina gráðu norðaustur af stjörnunni Alfa í Bereníkuhaddi, sem er tvístirni, en gott er að hafa stjörnukort af merkinu við höndina.

Best er að skoða þyrpinguna með stjörnusjónaukum við miðlungs- eða mikla stækkun. Í meðalstórum áhugamannasjónaukum (6 og 8 tommu og stærri) er hægt að koma auga á aðra daufari og nokkuð gisnari kúluþyrpingu, NGC 5053, aðeins tæpa gráðu austan við M53.

Tengt efni

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 53. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-53 (sótt: DAGSETNING).