Messier 60

Sporvöluþoka í Meyjunni

  • Messier 60, sporvöluþoka, Meyjan
    Sporvöluþokan Messier 60 í Meyjunni. Mynd: NASA/ESA/WikiSky
Helstu upplýsingar
Tegund: Sporvöluþoka
 Gerð: E2
Stjörnulengd:
12klst 43mín 39,6s
Stjörnubreidd:
+11° 33′ 09"
Fjarlægð:
60 milljón ljósár
Rauðvik:
z = -0,003726
Sjónstefnuhraði:
1.117 ± 6 km/s
Sýndarbirtustig:
+9,8
Stjörnumerki: Meyjan
Önnur skráarnöfn:
NGC 4849, Arp 116

Athyglisvert er að þrír stjörnufræðingar fundu Messier 60 hver í sínu lagi árið 1779. Þjóðverjinn Jóhann Gottfried Koehler í Dresden fann hana fyrstur 11. apríl, Ítalinn Barnabus Oriani sá hana daginn eftir og loks sá Frakkinn Charles Messier þokuna 15. apríl.

Messier 60 er þriðja bjartasta vetrarbrautin í Meyjarþyrpingunni, safni meira en 1.300 vetrarbrauta. Hún er 120.000 ljósár í þvermál og um ein trilljón sólmassar — um það bil fimm sinnum massameiri en vetrarbrautin okkar. Í miðjunni er 4,5 milljarða sólmassa risasvarthol, eitt hið stærsta sem fundist hefur.

Örstutt frá Messier 60 er dauf, bláleit þyrilþoka: NGC 4647. Hún er mun minni en nágranninn eða á stærð við vetrarbrautina okkar. Lengi hefur verið óljóst hvort um sé að ræða gagnvirkar vetrarbrautir en nýlegar athuganir Hubblessjónaukans benda til að svo sé, þótt gagnverkunin sé sáralítil.

Tvíeykið Messier 60 og NGC 4647 er 116. fyrirbærið í skrá bandaríska stjörnufræðingsins Haltons Arp yfir sérkennilegar vetrarbrautir sem kom út árið 1966. Í skrá Arps eru 338 vetrarbrautir sem eru að renna saman eða gagnverka hvor við aðra.

Á himninum

Messier 60 sést vel frá Íslandi en best er að skoða hana þegar Meyjarmerkið er í suðri að áliðinni nóttu seint í mars og snemma í apríl. Þokan er örfáar gráður austan við stjörnuna ε en gott er að nota stjörnukort af Meyjunni til að finna hana.

Sýndarbirtustig Messier 60 er +9,8 svo nota þarf stjörnusjónauka til að skoða hana. Í gegnum átta tommu sjónauka við um það bil 100-falda stækkun sést bjartur kjarni sem dofnar til jaðranna. Einnig glittir í NGC 4647.

Tengt efni

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 60. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-60 (sótt: DAGSETNING).