Messier 61

Þyrilþoka í Meyjunni

  • Messier 61, þyrilþoka, Meyjan
    Þyrilþokan Messier 61 í Meyjunni. Mynd: Hillary Mathis, N.A.Sharp/NOAO/AURA/NSF
Helstu upplýsingar
Tegund: Þyrilþoka
 Gerð: SAB(rs)bc
Stjörnulengd:
12klst 21mín 54,9s
Stjörnubreidd:
+04° 28′ 25"
Fjarlægð:
60 milljón ljósár
Rauðvik:
z = 0,005224
Sjónstefnuhraði:
1566 ± 2 km/s
Sýndarbirtustig:
+10,2
Stjörnumerki: Meyjan
Önnur skráarnöfn:
NGC 4303

Ítalski stjörnufræðingurinn Barnabus Oriani uppgötvaði þokuna 5. maí árið 1779 þegar hann fylgdist með halastjörnu sem prýddi himininn á þeim tíma. Charles Messier sá hana sama dag og Oriani en ruglaðist á henni og halastjörnunni. Sex dögum áttaði hann sig á að ekki væri um halastjörnu að ræða heldur áður óþekkta þoku og færði hana í skrá sína.

Messier 61 er í um 65 milljón ljósára fjarlægð í Meyjarþyrpingunni, safni meira en 1.300 vetrarbrauta. Hún er um 100.000 ljósár í þvermál og því svipuð Vetrarbrautinni okkar. M61 er við suðurjaðar miðju þyrpingarinnar.

Frá því að athuganir hófust hafa sex sprengistjörnur sést í Messier 61 (1926A, 1961I, 1964F, 1999gn, 2006ov og 2008in). Þrjár síðastnefndu voru af gerð II.

Á himninum

Messier 61 sést vel frá Íslandi en best er að skoða hana þegar Meyjarmerkið er í suðri að áliðinni nóttu í febrúar, mars og snemma í apríl. Tiltölulega auðvelt er að finna hana vegna þess að hún er nokkuð stór og björt miðað við hinar vetrarbrautirnar í nágrenninu. Best er að hefja leitina með því að finna stjörnurnar Beta og Delta í Meyjunni með hjálp stjörnukorts. Milli þeirra eru stjörnurnar 17 og 16 Virginis sem sjást með handsjónauka eða leitarsjónauka og er Messier 61 að finna milli þeirra.

Sýndarbirtustig Messier 61 er +10 svo nota þarf stjörnusjónauka til að skoða hana. Í gegnum átta tommu sjónauka við nokkuð stækkun sést bjartur kjarni og að minnsta kosti tveir þyrilarmar. Með stærri sjónaukum sjást frekari smáatriði.

Tengt efni

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 61. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-61 (sótt: DAGSETNING).