Sólblómið

Messier 63: Þyrilþoka í Veiðihundunum

  • Messier 63, Sólblómið, þyrilþoka, Veiðihundarnir
    Sólblómið Messier 63 í Veiðihundunum. Mynd: Andy Fisher/Adam Block/AURA/NOAO/NSF
Helstu upplýsingar
Tegund: Þyrilþoka
 Gerð: SAB(rs)bc
Stjörnulengd:
12klst 21mín 54,9s
Stjörnubreidd:
+04° 28′ 25"
Fjarlægð:
60 milljón ljósár
Rauðvik:
z = 0,005224
Sjónstefnuhraði:
1566 ± 2 km/s
Sýndarbirtustig:
+10,2
Stjörnumerki: Veiðihundarnir
Önnur skráarnöfn:
NGC 5055

Franski stjörnufræðingurinn Pierre Méchain uppgötvaði þokuna þann 14. júní 1779. Sama dag færði landi hans og vinur Charles Messier þokuna í skrá sína yfir fyrirbæri á himninum sem líktust halastjörnum.

Sólblómið var einn þeirra fjórtán þyrilþoka sem William Parsons, lávarður af Rosse, hafði rissað upp og skráð hjá sér. Það var ekki fyrr en upp úr 1920 að Edwin Hubble fann út að þyrilþokurnar voru langt fyrir utan vetrarbrautina okkar.

Sólblómið er í um 37 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún tilheyrir hópi vetrarbrauta sem kenndur er við Messier 51 eða Svelginn sem líka er í Veiðihundunum. Í hópnum eru nokkrar aðrar smærri vetrarbrautir.

Sólblómið er um 100.000 ljósár í þvermál eða á stærð við vetrarbrautina okkar. Hún hefur bláleita þyrilarma sem hverfast um gulleitann kjarnann svo hún minnir á sólblóm. Í örmunum er fjöldi stjörnumyndunarsvæða og mikið ryk eins og sést á innrauðri ljósmynd Spitzer geimsjónauka NASA sem birt var árið 2011.

Á himninum

Stjörnumerkið Veiðihundarnir sést vel frá Íslandi. Mjög auðvelt er að finna Sólblómið sem er staðsett næstum nákvæmlega mitt á milli stjarnanna Cor Caroli í Veiðihundunum og Eta í Stórabirni en gott er að nota stjörnukort af Veiðihundunum til að auðvelda sér leitina.

Sólblómið er nokkuð björt vetrarbraut en samt tiltölulega dauf að sjá í gegnum handsjónauka. Best er að skoða hana með stjörnusjónauka við meðalstækkun. Því stærra sem ljósopið er, því betra. Með 8 tommu sjónauka er hægt að greina þyrilarmana.

Sólblómið er kjörið viðfangsefni bæði byrjenda sem og lengra kominna.

Myndasafn

Messier 63, Sólblómið, þyrilþoka, Veiðihundarnir

Sólblóm Spitzers

Innrauð ljósmynd Spitzer geimsjónauka NASA af Messier 63 eða Sólblóminu í Veiðihundunum. Myndin sýnir vel rykug svæði í vetrarbrautinni en rykið er hráefni í nýjar stjörnur.

Mynd: NASA/JPL-Caltech/SINGS hóp

Tengt efni

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 63. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-63 (sótt: DAGSETNING).