Messier 68

Kúluþyrping í Vatnaskrímslinu

  • Messier 68, kúluþyrping, Vatnaskrímslið
    Kúluþyrpingin Messier 68 í Vatnaskrímslinu. Mynd: NASA/ESA/WikiSky
Helstu upplýsingar
Tegund: Kúluþyrping
Stjörnulengd:
12klst 39mín 28,01s
Stjörnubreidd:
-26° 44′ 34,9"
Fjarlægð:
33.000 ljósár
Sýndarbirtustig:
+9,67
Stjörnumerki: Vatnaskrímslið
Önnur skráarnöfn:
NGC 4590

Franski stjörnufræðingurinn Charles Messier uppgötvaði þyrpinguna þann 9. apríl árið 1780. William Herschel greindi fyrstur manna stjörnur í henni árið 1786.

Messier 68 er í um 33.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er nokkuð stór og inniheldur að minnsta kosti 100.000 stjörnur sem dreifast yfir svæði sem er 106 ljósár í þvermál. Í þyrpingunni eru þekktar rúmlega 40 breytistjörnur, þar af 28 RR hörpustjörnur. Messier 68 stefnir í átt til okkar á 112 km/sek.

Á himninum

Messier 68 er of sunnarlega á himinhvolfinu til að hægt sé að sjá hana frá Íslandi. Fara þarf á mun suðlægari slóðir til að sjá þyrpinguna og styðjast við stjörnukort af Vatnaskrímslinu til að finna hana.

Í gegnum handsjónauka birtist hún sem dauf kúlulaga móða. Björtustu stjörnurnar sjást með fjögurra tommu sjónauka og sýnir líka hvernig þyrpingin dofnar til jaðranna. Góður átta tommu sjónauki sýnir margar stjörnur í þyrpingunni og er gott að nota nokkuð mikla stækkun til að skoða hana (yfir 100x). Bjartasta stjarna Messier 68 hefur sýndarbirtustigið +12,6.

Tengt efni

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 68. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-68 (sótt: DAGSETNING).